Kynningargögn

Norðausturvegur til Vopnafjarðar(85) - 2. áfangi, Bunguflói - Vopnafjörður

9.2.2009

Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í nýbyggingu Norðausturvegar (85) um Vesturárdal á milli Bunguflóa og Vopnafjarðar, nýbyggingu Hofsárdalsvegar (920) á milli Vesturárdals og Hofsárdals, endurbætur Skógavegar (914) frá Vesturárdalsvegi og um 200 m vestur fyrir tengingu við Torfastaðaveg (9120), auk nokkurra heimreiða.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði er í Vopnafjarðarhreppi í Norður-Múlasýslu og liggur um lönd jarðanna Kálffells, Hauksstaða, Búastaða, Vakurstaða I og II, Ljótsstaða I og II, Torfastaða, Norður-Skálaness, Teigs og Burstafells.

Norðausturvegur verður um 30,4 km langur og liggur frá Bunguflóa, um Vesturárdal að þéttbýlinu á Vopnafirði. Hofsárdalsvegur (920) liggur frá nýja Norðausturveginum í Vesturárdal yfir að Árhvammi í Hofsárdal og verður hann 6,8 km langur. Endurbæta þarf 0,85 km af Skógavegi (914), frá Vesturárdalsvegi vestur fyrir tengingu við Torfastaðaveg. Nýjar tengingar verða um 1,6 km langar.

Lengd útboðskaflans er alls um 39,7 km. Áætluð efnisþörf í verkið er um 1.100.600 m3.

Tilgangur framkvæmdar með nýjum vegi er að styrkja byggðarlög á Austurlandi með bættu vegasambandi milli Vopnafjarðar og Hringvegar. Markmiðið með gerð vegarins er fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu vegna veðurfars og tryggja greiðar samgöngur á svæðinu, ekki síst fyrir þungaflutninga.

Bygging Norðausturvegar til Vopnafjarðar var matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b og lá álit Skipulagsstofnunar fyrir þann 13. júlí 2007.

Kynningarskýrsla
Yfirlitsmynd 1
Yfirlitsmynd 2

Matsskýrsla, teikningar og önnur fylgigögn