Kynningargögn

Norðausturvegur til Vopnafjarðar (85) - 1. áfangi

Brunahvammsháls - Bunguflói

7.7.2008

Framkvæmdir eru hafnar á fyrsta áfanga Norðausturvegar til Vopnafjarðar. Um er að ræða nýbyggingu frá Brunahvammshálsi að Bunguflóa þar sem nýr vegur tengist núverandi vegi. Lengd framkvæmdakafla er um 11,2 km en heildarlengd fyrirhugaðs vegar til Vopnafjarðar er um 42 km. Framkvæmdakaflinn er í sveitarfélaginu Vopnafjarðarhreppi í N-Múlasýslu og liggur um land eyðibýlanna Brunahvamms og Kálffells, norðan Hofsár á ofanverðum Fossdal.

Um er að ræða nýbyggingu sem nær frá núverandi slitlagsenda hjá Hölkná á Brunahvammshálsi að núverandi vegi við Pyttalæk á Bunguflóa. Ný veglína liggur víðast 0,6-1 km neðar í hlíðinni en núverandi vegur og 50-100 m lægra í landi. Núverandi vegur er í 410-500 m.y.s. sunnan undir Brunahvammshálsi.

Í vegstæðinu er land víða mishæðótt þar sem skiptast á melar, stórgrýtisurð og gróðurtorfur með háum rofabörðum. Alldjúpir farvegir liggja víða þvert um vegstæðið, flestir þurrir í venjulegu tíðarfari.

Áætluð efnisþörf fyrir verkið er um 300 þús. m3. Þar af er gert ráð fyrir um 143 þús. m3 úr skeringum.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að styrkja samgöngur á Austurlandi, auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum á svæðinu með því að leggja veg með hönnunarhraða 90 km/klst. Nýr vegur verður öruggari og greiðfærari en núverandi vegur.

Verkið var boðið út í október árið 2007 og eru framkvæmdir hafnar. Verktaki er Suðurverk hf. Áætluð verklok eru 1. nóvember 2008.

Bygging Norðaustursvegar til Vopnafjarðar var matsskyld sk. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Skipulagsstofnun gaf álit sitt á matsskýrslu 13. júní 2007.

Matsskýrsla, teikningar og önnur fylgigögn