Kynningargögn

Hringvegur um Hrútafjörð, ný tenging Djúpvegar

7.6.2007

Vegagerðin er með skýrslu þessari að kynna breytingu á fyrirhugaðri vegaframkvæmd á Hringvegi, vegnúmer 1, í Bæjarhreppi í Strandasýslu og Húnaþingi vestra í Vestur-Húnavatnssýslu, og Djúpvegi, vegnúmer 61, í Bæjarhreppi. Framkvæmdin nefnist:

Hringvegur um Hrútafjörð, Brú-Staðarskáli.

Í kynningarskýrslu sem birt var í mars 2006 var greint frá að vegtenging við Djúpveg yrði tæplega 0,3 km löng. Í samráði við sveitarfélög á svæðinu hefur verið fallið frá þeirri tengingu og ákveðið að leggja til að vegtenging við Djúpveg liggi norðar og verði tæplega 1,8 km löng. Tilgangur breytinga á áður kynntri framkvæmd er að stytta leiðina um Hrútafjarðarbotn, milli Norðurlands og Vestfjarða.

Ný vegtenging við Djúpveg liggur um tvö sveitarfélög og tvær sýslur á þessum kafla: annarsvegar Bæjarhrepp í Strandasýslu vestan sýslumarka, hinsvegar Húnaþing vestra í Vestur-Húnavatnssýslu, austan sýslumarka.

Framkvæmdin er á vegáætlun 2007-20010. Áætlað er að framkvæmdir hefjist árið 2007 og að þeim ljúki árið 2009.

Framkvæmdin telst ekki matsskyld skv. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 ásamt síðari breytingum, 1. viðauka lið 10ii því nýlagning vega nær ekki 10 km. Við athugun Vegagerðarinnar hefur komið í ljós að kanna þarf matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, 2. viðauka lið 10.b. Nýir vegir utan þéttbýlis á verndarsvæðum. Ný tenging Djúpvegar liggur um sjávarfitjar sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. viðauki 3, liður 2. iii (a) og ber að forðast að raska eins og kostur er.

Hringvegur um Hrútafjörð - tenging Djúpvegar - kynningarskýrsla