Kynningargögn

Hringvegur(1); Hafravatnsvegur - Þorlákshafnarvegur

Kynning framkvæmdar

15.11.2006

Vegagerðin kynnir nú tillögu að breikkun Suðurlandsvegar um eina akrein í svokallaðan 2+1 veg, frá gatnamótum við Þorlákshafnarveg og Hveragerði að gatnamótum við Hafravatnsveg.

Vegurinn verður þá tvær akreinar í aðra áttina og ein akrein í gagnstæða átt.

Miðjuakrein er síðan víxlað sem næst á eins til tveggja og hálfs kílómetra millibili.

Víravegrið verður sett á milli akstursstefna, sem dregur verulega úr líkum þess að bílar úr gagnstæðri átt rekist saman.

Markmið með framkvæmdinni er fyrst og fremst að fækka slysum, auka þannig umferðaröryggi og tryggja um leið greiðari umferð á þessari leið.

Með þessum áfanga verður lokið við lagningu 2+1 vegar frá Hveragerði að Hafravatnsvegi, en nú þegar hefur slíkur vegur verið lagður á hluta leiðarinnar, alls 4,5 km langan kafla, frá gatnamótum Suðurlandsvegar við Hamragilsveg að Litlu kaffistofunni.

Vegurinn verður breikkaður í núverandi vegstæði og lagður þannig að síðar megi breyta honum í 2+2 veg með víravegriði.

Samanburður á 2+1 vegi og 2+2 vegi á þessari leið sýnir að 2+1 vegur er hagkvæmasta leiðin til að stórauka öryggi og flutningsgetu Suðurlandsvegar fram til 2025 - 2030.

Forhönnun og verkhönnun fyrsta áfanga vegarins lýkur nú um áramótin 2006 og er stefnt að því að bjóða út framkvæmdir við fyrsta áfanga í framhaldi af því. Á samgönguáætlun 2005 til 2008 er gert ráð fyrir að verja 311 milljónum króna í þessa framkvæmd, en rætt hefur verið um að leggja enn meira fé í þessa framkvæmd strax á næsta ári. Hafist verður handa um fyrsta hluta framkvæmdar yfir Hellisheiðina í upphafi árs 2007 og samhliða því er líklegt að vegarkaflinn frá enda klifurreinar fyrir ofan Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofunni verði einnig lagður.

Framkvæmdinni er nánar lýst í skýrslunni: Hringvegur(1); Hafravatnsvegur - Þorlákshafnarvegur - Breikkun í 2+1 veg