Frummatsskýrslur
  • Norðfjarðargöng - Yfirlitsmynd
    Norðfjarðargöng - Yfirlitsmynd

Norðfjarðarvegur (92) um Norðfjarðargöng, milli Eskifjarðar og Norðfjarðar

Frummatsskýrsla

10.12.2008

Vegagerðin áformar að byggja ný jarðgöng, Norðfjarðargöng, milli Eskifjarðar og Norðfjarðar í Fjarðabyggð í Suður-Múlasýslu. Jarðgöngin verða 6,9-7,8 km löng og nýir vegir verða samtals 7,2-8,8 km langir beggja vegna gangamunna. Í heild er um er að ræða 15,0-15,9 km langa framkvæmd sem verður hluti af Norðfjarðarvegi. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist seint á árinu 2009 og taki 3 - 3½ ár.

Framkvæmdin fellur undir 5. gr. laga nr. 106/2000, með síðari breytingum, um mat á umhverfisáhrifum, framkvæmdir sem eru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaaðili er Vegagerðin og ber hún ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar.

Vegagerðin hefur metið umhverfisáhrif vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar í samræmi við matsáætlun og í samráði við ýmsa sérfræðinga. Í þessari frummatsskýrslu er tilhögun fyrirhugaðra vegaframkvæmda lýst og umhverfisáhrif þeirra metin. Frummatsskýrslan skiptist í ellefu kafla auk þess sem teikningahefti og viðaukar fylgja henni.

Frummatsskýrsla er lögð fram til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. Við athugunarferlið mun stofnunin leita umsagnar opinberra umsagnaraðila og athugasemda almennings.

Allir hafa rétt til að leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast Skipulagsstofnun eigi síðar en þann dag sem frestur til athugasemda rennur út. Athugasemdafrestur er til 22. janúar 2009.

Þá mun Skipulagsstofnun senda Vegagerðinni umsagnir og athugasemdir sem hafa borist. Í kjölfarið mun Vegagerðin vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu þar sem gerð verður grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og tekin afstaða til þeirra.

Matsskýrsla verður send Skipulagsstofnun sem hefur 4 vikur til að gefa álit sitt á hvort skýrslan uppfylli lög nr. 106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum og hvort umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Matsskýrsla er ekki auglýst.

Norðfjarðargöng - Frummatsskýrsla