Smellið á myndina til að fá stærri mynd
Fréttir af Norðfjarðargöngum

Norðfjarðargöng

Framkvæmdin sem hér um ræðir nær yfir gröft jarðganga, smíði vegskála við gangaenda, klæðingu ganga, jarðvatnslagnir og rafbúnað ásamt vegagerð í göngum og vegagerð að göngum.
Lengd ganga í bergi er áætluð 7.542 m, vegskáli er 120 m Eskifjarðarmeginn og 246 m Norðfjarðarmegin eða samtals 366 m Heildarlengd ganga með vegskálum er áætluð 7.908 m. Gólf í göngum fer mest í 175 m hæð y.s. í miðjum göngunum og er mesti lengdarhalli 3,0 %. Þversnið er samkvæmt norskum reglum og nefnist T8, breidd þess er rúmlega 8,0 m í veghæð, þverskurðarflatarmál 53 m2. Í göngum eru 14 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru 4 steypt tæknirými og 2 við hlið vegskála. Göngin eru malbikuð með steyptum upphækkuðum öxlum.


Þversnið Norðfjarðarganga

Á teikningunni er sýnd vatnsklæðin öðrum megin, en ef göngin eru klædd báðum megin er breidd þeirra í axlarhæð 8,25 m og 8,72 m þar sem breiddin er mest. Mesta hæð er 6 m, en leyfileg hæð ökutækja er 4,2 m eins og í öðrum nýlegum göngum.

Nýr vegur verður byggður beggja vegna gangamunna. Nýir vegir eru u.þ.b. 2 km Eskifjarðarmegin og 5,3 km Norðfjarðarmegin, samtals um 7,3 km. Vegurinn verður 8 m breiður með 7 m akbraut.

Byggður verður steinsteyptur undirgangur með vegskálaþversniði undir veginn Eskifjarðarmegin fyrir umferð frá bænum inn í dalinn.

Fyrirhugaður gangamunni að sunnan verður rétt innan við gamla Eskifjarðarbæinn, munni verður þar í um 15 m hæð yfir sjó. Göngin eru að þremur fjórðu hlutum einhalla frá Eskifirði upp til Fannardals í Norðfirði með 3,0 % halla, einn fjórði hluti hallar niður til Fannardals með 1.5% halla. Munni Norðfjarðarmegin verður í 125 m hæð yfir sjó í landi Tandrastaða.

Rafmagnsbúnaður og öryggisbúnaður er fjölþættur, mest af búnaðinum er í 6 tæknirýmum meðal annars 6 spennistöðvar. Svonefndar neyðarstöðvar sem eru með 250 m bili eru einu skáparnir sem festir eru á veggi ganga, í þeim er sími og tvö slökkvitæki, allir aðrir rafbúnaðarskápar eru í tæknirýmum. Loftræsiblásarar 1 m í þvermál, eru 20 og eru tveir og tveir saman á 4 svæðum við tæknirýmin inni í göngunum.

Í tengslum við vegagerð að göngum verða byggðar nýjar brýr á Norðfjarðará og Eskifjarðará, en bygging þeirra verður í sérstökum útboðum.

Framvinda og áætlun

Heildarkostnaður við verkið er áætlaður 12.054 m. kr. á verðlagi í febrúar 2013. Í þeirri tölu er innifalinn kostnaður við rannsóknir hönnun og eftirlit auk framkvæmdanna sjálfra. Tilboð í aðalverkið er á sama verðlagi.

Forval fór fram síðla árs 2012 og sóttust þrír verktakar og verktakasamsteypur um að bjóða í göngin og voru allir metnir hæfir, þeir eru

ÍAV hf., Reykjavík og, Marti Contractors Ltd., Switzerland.
Ístak hf., Reykjavík.
Metrostav a.s. Czech republic og Suðurverk hf., Reykjavík.

Ofangreindir aðilar fengu send útboðsgögn 20 febrúar 2013. Á útboðstíma óskaði Landsnet eftir því að lögð yrðu ídráttarrör í göngin vegna lagnar háspennustrengs gegnum gegnum þau síðar. Gerður var viðauki við útboðsgögn vegna þessa.

Tilboð í verkið voru opnuð 16. apríl 2013 og voru niðurstöður eftirfarandi:

ÍAV hf. og Marti Contractors ltd.
10.494.712.885 kr.
Ístak hf., Mosfellsbæ
9.914.168.007 kr.
Metrostav a.s. og Suðurverk hf.
9.292.853.404 kr.

Áætlaður verktakakostnaður var 9.547.000.000 kr.

Skrifað var undir verksamning við lægstbjóðanda Metrostav a.s. og Suðurverk hf. á Norðfirði 14. júní 2013.

Undirbúningsframkvæmdir vegna jarðgangagerðar hófust síðla sumars og áætlað að gangagerð Eskifjarðarmegin hefjist í nóvember 2013 og Norðfjarðarmegin í ársbyrjun 2014. Grafa á um 2/3 frá Eskifirði og 1/3 frá Norðfirði þar sem meiri hluti ganganna hallar upp til Norðfjarðar. Gegnumbrot áætlar verktaki um mitt ár 2015. Fyrri áætlanir verkkaupa gerðu ráð fyrir því nokkru síðar.

Eftir gegnumbrot tekur við vinna við lokastyrkingar, klæðingar, vegagerð og raflagnir auk þess sem smíða þarf vegskála, áætlaða er að göngin verði opnuð til umferðar í september 2017.

Eftirlit með framkvæmdinni allri var boðin út 15. apríl 2013 og voru tilboð opnuð í tvennu lagi 28. maí og 4. júní. Þrjú tilboð bárust frá eftirfarandi aðilum:

GeoTek hf. og Efla hf.
499.955.000 kr.
Verkís hf. og VSÓ-Ráðgjöf ehf.
488.914.000 kr.
Verkfræðistofan Hnit hf.
431.308.315 kr.

Áætlaður verktakakostnaður var 545.000.000 kr.
Skrifað var undir samning við lægstbjóðanda Verkfræðistofuna Hnit hf. 26. júní 2013.

Smíði brúar á Norðfjarðará var boðin út 25. mars 2013 og tilboð opnuð 16. apríl. Tvö tilboð bárust í verkið.

Moki ehf.
109.976.466 kr.
VHE ehf.
78.419.704 kr.

Áætlaður verktakakostnaður var 116.700.000 kr.
Skrifað var undir verksamning við VHE ehf. 14. júní og hófst verkið skömmu síðar. Smíði brúar á Norðjarðará lauk um miðjan október 2013.

Gert er ráð fyrir að smíði brúar á Eskifjarðará verði boðin út snemma árs 2015. Einnig er eftir að bjóða út kaup á ýmsum rafbúnaði í göngin og forritun og uppsetningu stjórnkerfis.


Jarðfræðiskýrslur

Rannsóknir á eiginleikum setbergs í Norðfjarðargöngum og Óshlíðargöngum
Jarðfræðilegar aðstæður til gangagerðar milli Eskifjarðar og Norðfjarðar
Viðauki A - Jarðfræðirannsóknir - Lýsing á borholum
Viðauki B - EF_Boreholes_Core_Photos
Viðauki B - NF_Boreholes_Core_Photos
Norðfjarðargöng - Viðauki C - Percussion logs 2008
Norðfjarðargöng - Teikningar


rognvaldur.gunnarsson@vegagerdin.is

.