Fréttir
  • Fimmtíu mættu á fundinn á Ísafirði.
  • Tækin sem notuð eru í vetrarþjónustu eru vígaleg.
  • Fyrirlestur um kastplóga og sýnikennsla.
  • Erlendur B. Magnússon verkstæðisformaður Vegagerðarinnar í Borgarnesi með sýnikennslu á Akureyri.
  • Myndarlegur hópur á vetrarþjónustunámskeiði í Reykjavík.
  • Góð mæting var á fundinn á Egilsstöðum.

Yfir 250 manns á vetrarþjónustunámskeiðum Vegagerðarinnar

Námskeiðin haldin á fimm stöðum á landinu

23.10.2019

Vetrarþjónustunámskeið Vegagerðarinnar voru haldin á fimm stöðum á landinu í október. Nokkur ár eru síðan síðasta námskeiðið var haldið en ætlunin er að halda þau árlega.

Námskeiðin eru ætluð öllum sem koma að vetrarþjónustu Vegagerðarinnar, til dæmis verktökum í snjómokstri, verkstjórum og vélamönnum þjónustustöðva Vegagerðarinnar, deildarstjórum umsjónadeilda, verkstæðismönnum Vegagerðarinnar, vaktstjórum úr vaktstöðvum, eftirlitsmönnum og fleirum.

Í ár voru haldin fimm námskeið á tímabilinu 8. til 15. október, á Egilsstöðum, Akureyri, Ísafirði, Selfossi og í Reykjavík . Í heildina sóttu 254 manns námskeiðið.

Nokkrir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir á námskeiðinu. Kynntir voru staðlar og þjónustuflokkar og farið yfir vinnureglur vetrarþjónustu. Kynntar voru hálkuvarnir og önnur efni sem notuð eru í vetrarþjónustu. Starfsmenn vaktstöðva Vegagerðarinnar sögðu frá færðargreiningum og samskiptum, og fjárreiðudeild lýsti fyrirkomulagi rafrænna reikninga Vegagerðarinnar. Farið var yfir viðbragðsáætlanir lokana og þá hélt Erlendur B. Magnússon verkstæðisformaður Vegagerðarinnar í Borgarnesi góðan fyrirlestur um kastplóga og dreifara.

Mikill áhugi var á öllum fyrirlestrunum en áhugaverðast þótti þó snjómokstursmönnum að heyra um kastplóga og dreifara ásamt færðargreiningu og samskiptum.

Góður rómur var gerður að námskeiðunum enda var fólk farið að lengja eftir vetrarþjónustunámskeiði eftir nokkurra ára hlé. Námskeiðin þykja góð bæði fyrir nýja starfsmenn sem og þá sem hafa reynslu af vetrarþjónustu enda er hún um margt flókin og því gott er að rifja upp. Einnig hittist á þessum námskeiðum fólk sem hefur oft og tíðum aðeins átt samskipti í gegnum fjarskipti. Fólk talar saman og deilir reynslu sinni með öðrum hvort sem það er í spjalli yfir kaffibolla eða með fyrirspurnum úr sal.