Fréttir
  • eru Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH og Bergþóra Þorkelsdóttir handsala samkomulag um verkefnastofu Borgarlínu.  Páll og Bergþóra skipa jafnframt framkvæmdastjórn verkefnisins.

Verkefnastofa Borgarlínu tekur til starfa

Starfar á grundvelli samkomulags milli Vegagerðarinnar og SSH

6.7.2019

Verkefnastofa Borgarlínu hefur nú tekið formlega til starfa og mun sinna undirbúningsverkefnum fyrir fyrsta áfanga Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnastofan starfar á grundvelli samkomulags milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem lagður var grunnur að í samgönguáætlun.  Samkomulagið felur í sér að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Vegagerðin skipti með sér kostnaði vegna undirbúningsvinnunnar á árunum 2019 og 2020 og brúa þannig bil þar til samkomulag hefur náðst um fyrirkomulag og fjármögnun á öllum samgöngukerfum á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin.

Tilgangur verkefnastofunnar er að ljúka forhönnun Borgarlínu, yfirfara leiðarkerfi almenningssamgangna, kostnaðarmat, skipulagsvinna og gerð umhverfismats þannig að hægt verði í framhaldinu að hefja verkhönnun og undirbúa gerð útboðsgagna fyrir framkvæmdir.

Á verkefnastofunni eru þrír verkefnastjórar, þau Bryndís Friðriksdóttir samgönguverkfræðingur, Hrafnkell Á. Proppé skipulagsfræðingur og Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur.  Verkefnateymið mun njóta tilfallandi stuðnings sérfræðinga Vegagerðarinnar, sveitarfélaganna og Strætó bs.  Undirbúningsvinnan mun jafnframt vera í höndum utanaðkomandi ráðgjafa, bæði innlendra og erlendra.

BRT Planning International (BRTPlan) mun vera Verkefnastofu til ráðgjafar í ferlinu. Fyrirtækið starfar í Brooklyn í New York í Bandaríkjunum  og hefur komið að skipulagi og framkvæmdum BRT kerfa í norður og suður Ameríku, Asíu, Afríku og Evrópu. BRTPlan hefur komið að gerð staðla fyrir BRT kerfi (BRT Standard) og uppbyggingu meðfram þeim (TOD standard).  Fyrirtækið hefur ennfremur sinnt ráðgjöf til stofnana á borð við  ITDP (Institute for Transportation and Development Policy), Alþjóðabankann og þróunarbanka Asíu. Aðalráðgjafi BRTPlan vegna undirbúnings Borgarlínu verður Annie Weinstock samgönguverkfræðingur sem hefur sérhæft sig í verkefnastjórnun í almenningssamgönguverkefnum.