Fréttir
  • Erla María Hauksdóttir jarðfræðingur á toppi steinefnabankans.
  • Steinefnabankinn er geymdur á Keldnaholti.
  • Sýni tekið úr steinefnabankanum.
  • Steinefnasýni

Vel stæður banki

Steinefnabanki Vegagerðarinnar var stofnaður 1995 og reynist þeim vel sem vilja stunda rannsóknir á mismunandi burðarlags- og klæðingarefnum.

22.8.2019

„Steinefnabankinn var stofnaður árið 1995 í tengslum við BUSL en það er samstarf Vegagerðarinnar, Borgarverkfræðings í Reykjavík, Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og Verkfræðideildar Háskóla Íslands um rannsókna- og þróunarverkefni á sviði vega- og gatnagerðar. Hugmyndin var búa til upplýsingagrunn um steinefni og greiða þannig fyrir frekari styrktarlags-, glitni- og burðarlagsrannsóknum ýmiskonar,“ segir Erla María Hauksdóttir jarðfræðingur. Hún gegndi því virðulega heiti bankastjóri steinefnabanka Vegagerðarinnar á árunum 2008 til 2019 meðan hún starfaði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Keldnaholti en þar hefur bankinn aðstöðu. „Ég byrjaði sem bankastjóri á hrunárunum og gaman að hugsa til þess að ég stjórnaði eina banka landsins sem dafnaði vel á þessum tíma,“ segir Erla glaðlega en hún kom til starfa hjá Vegagerðinni í apríl síðastliðnum og stundar nú rannsóknir á vegum stofnunarinnar.

Árið 1995 var safnað stórum sýnum af burðarlagsefnum úr 20 námum víðsvegar af landinu. Sýnunum var safnað í ker, ýmist eitt eða tvö eftir atvikum og á næstu árum bættust við sýni úr fleiri námum. „Ákveðið var að víkka út bankann árið 2013 og vera þá ekki bara með burðarlagsefni heldur einnig klæðingarefni,“ segir Erla og bendir á að Vegagerðin hafi viljað huga að því að nota umhverfisvænni efni. „Áður var alltaf notuð vegolía og díamín til að blanda saman við bikið, en ákveðið var að fara úr hvítspírablöndunni yfir í náttúrulegri kosti,“ segir Erla. Hún útskýrir að þynna þurfi bikið út til að það komist í gegnum spíssa á vélunum sem sprauta því yfir klæðingarefnið. „Menn prófuðu ýmsar olíur í þessum tilgangi, til dæmis repjuolíu, lýsi og steikarolíu, og prófuðu einnig mismunandi viðloðunarefni. Þarna var alveg frábært fyrir rannsakendur að geta gengið að steinefnabankanum. Þeir gátu þannig gengið út frá því að eiginleikar steinefnanna væri alveg þekkt breyta og að munurinn á gæðum klæðingarinnar lægi aðeins í þeim íblöndunarefnum sem verið væri að prófa. Þannig var hægt að fá áreiðanlegan samanburð. Það er alveg frábært fyrir rannsakendur að hafa þennan núllpunkt.“

Erla hefur starfað hjá Vegagerðinni frá því í maí og líkar vel. „Það er gaman að taka þátt í því fjölbreytta starfi sem fram fer hjá Vegagerðinni. Þá er einnig unnið að því að auka þátt rannsókna í starfseminni sem er mjög spennandi. Það er dýrmætt að geta fengið að vera áhrifavaldur hérna megin við borðið og geta unnið að því að bæta vegi landsins.“