Fréttir
  • Magnús segir að þó vegagerð virðist oft ganga hægt hafi orðið afar miklar framfarir síðustu áratugi. Hér er hann að stika nýja leið inn við Vatnajökul haustið 2021.
  • Magnús Valur Jóhannsson framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar heimsækir nafna sinn Magnús Jóhannsson í þjónustustöðina í Fellabæ haustið 2017.
  • Magnús Jóhannsson var ungur að árum þegar hann fór að sendast með skilaboð til vegavinnustarfsmanna. Það voru hans fyrstu verkefni fyrir Vegagerðina.
  • Starfsmenn þjónustustöðvarinnar í Fellabæ í september 2017. F.v. Þórarinn Már Árnason, Magnús Jóhannsson, Gunnar Smári Benediktsson, Björn Sigurðsson, Viktor Ágústson og Gísli Magnús Sæmundsson.
  • Hér má sjá þá Helga Gíslason, verkstjóra, Metúsalem Ólason og Egil Jónsson umdæmisverkstjóra við snjómælingar á Fjarðarheiði þann 17. apríl 1970. Helgi réði Magnús til starfa á sínum tíma.
  • Magnús með Reyni Gunnarssyni fyrrverandi rekstrarstjóra á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Höfn og Sveini Stefánssyni bónda á Haugum í Skriðdal. Þarna eru þeir að skoða vegstæði á Öxi í maí 2020.
  • Myndin er tekin við Oddsskarð árið 1955. Þar var áður einn hæsti fjallvegur landsins, sem var ógreiðfær og erfiður vegna snjóþyngsla yfir vetrartímann.
  • Þjónustustöð Vegagerðarinnar í Fellabæ.
  • Vinnan er líka áhugamálið, að sögn Magnúsar sem sést hér fyrir miðju, ásamt Jóhannesi Tómasson, frá innanríkisráðuneytinu og Hreini Haraldssyni, fyrrum vegamálastjóra.
  • Guðni Nikulásson var yfirverkstjóri í Fellabæ á undan Magnúsi.
  • Skoðunarferð inn á Öxi. F.v. Hafþór Ægisson flokksstjóri, Magnús, Guðmundur Birkir Jóhannsson eftirmaður Magnúsar í Fellabæ og Ari B. Guðmundsson yfirverkstjóri á þjónustustöðinni á Reyðarfirði
  • Magnús kom lítillega að undirbúningi Oddskarðsgangna, sem voru byggð á árunum 1972-1977, milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. Ef hann mætti ráða myndi hann láta bora jarðgöng um allt land í hvelli.
  • Magnús rekur alltaf augun í verkefni sem þarf að vinna þegar hann er á ferðinni. Hér er hann að fylgjast með endurgerð á varnargarði við Snæfell haustið 2021.

Vegagerð er ekki eins manns verk

Viðtal við Magnús Jóhannsson fráfarandi yfirverkstjóra í Fellabæ

11.11.2021

Magnús Jóhannsson, fráfarandi yfirverkstjóri hjá þjónustustöðinni í Fellabæ, hefur staðið vaktina hjá Vegagerðinni í fjóra áratugi. Hann ætlar ekki að setjast í hinn svokallaða helga stein heldur reiknar með að hafa nóg fyrir stafni og það er aldrei að vita nema hann fari að vinna á gröfu aftur eftir fjörutíu ára hlé.

Magnús er frá Breiðavaði í Eiðaþinghá og hefur hvergi annar staðar búið á allri sinni lífsleið. Foreldrar hans, Guðlaug Þórhallsdóttir og Jóhann Magnússon, voru með búskap og hann ólst því upp við hefðbundin sveitastörf, ásamt þremur bræðrum sínum. „Ég tel mig vera einn af fáum sem eru svo heppnir að hafa fæðst og alist upp á réttum stað og ég hef aldrei þurft að flytja. Ég byggði mér hús að Breiðavaði og hef búið þar með fjölskyldu minni alla tíð,“ segir Magnús en hann á unnustu, fjórar dætur og þrettánda barnabarnið er væntanlegt í heiminn innan skamms.

„Dætur mínar búa allar á Egilsstöðum. Ég er ekkert ósáttur við það. Þrjár þeirra fóru suður til náms og starfa en eru komnar aftur heim. Ein dóttir mín vinnur á leikskóla og hinar þrjár eru kennarar. Þegar dæturnar voru á unglingsaldri fengu tvær þeirra vinnu sem sumarstarfsmenn hjá Vegagerðinni og líkaði vel þótt þær veldu sér annað ævistarf,“ segir hann.

Sendiboði vegavinnuflokks

Magnús var ekki hár í loftinu þegar hann leysti af hendi fyrstu verkefnin fyrir Vegagerðina en þá flutti hann ýmis skilaboð til vegavinnuflokks sem var að leggja veg í nágrenni við Breiðavað.

„Á þeim tíma voru komnir símar á flesta bæina en vegavinnuflokkurinn var ekki í neinu símasambandi og því varð einhvern veginn að koma til þeirra orðsendingum. Stundum var ég beðinn um að skila til þeirra að koma í síma. Ef um var að ræða flókin skilaboð voru þau skrifuð niður á blað fyrir mig og ég fór með þau til verkstjórans. Ég viðurkenni að ég var stundum feiminn við þessa karla og þorði varla að opna munninn þegar þeir voru nálægt, enda var ég ekki nema sjö, átta ára á þessum tíma,“ rifjar Magnús glaðlega upp.

Hann minnist þess að í vegavinnuflokknum voru að mestu heimamenn en einnig var ráðskona við störf, sem sá um að elda ofan í mannskapinn. „Aðstaðan fyrir eldamennsku var í sérstökum skúr. Þeir sem voru í vegavinnuflokknum fóru ekki heim að vinnudegi loknum heldur gistu í tjöldum, sum voru ekki einu sinni með botni. Þetta voru fábrotnar aðstæður, enda fyrir tíma vegavinnuskúranna sem voru mikil framför. Ég held það væri erfitt að fá mannskap í dag til að búa við þessar aðstæður sumarlangt,“ segir Magnús en þetta var í kringum árið 1960.

Oddskarðsgöngin eftirminnileg

Að grunnskóla loknum gekk Magnús í Alþýðuskólann að Eiðum og útskrifaðist þaðan 1970. „Eftir það fór ég að vinna á gröfu, mest á Héraði, Seyðisfirði, Stöðvarfirði og Borgarfirði. Fyrst átti ég ekkert í þessari gröfu, síðan eignaðist ég helminginn í henni og loks átti ég hana alla. Ég seldi hana en hef nú eignast hana aftur,“ greinir Magnús frá.

Hann tók að sér ýmis verkefni, svo sem að grafa fyrir vatnsleiðslum, taka húsgrunna og verk sem sneru að því að gera litlar virkjanir. „Ég vann mikið fyrir bændur á Héraði, Vegagerðina, Rarik, Landsímann og sveitarfélögin á svæðinu. Ég man að á þessum árum var mest verið að leggja malarvegi en það var svo upp úr 1982 sem farið var að setja klæðingu á vegi, sér í lagi í kringum helstu þéttbýli. Ég tók sérstaklega eftir því hvað það gekk hratt fyrir sig en auðvitað var þá þegar búið að leggja í heilmikla undirvinnu,“ segir Magnús.

Á meðal minnisstæðra verkefna frá þessum árum nefnir Magnús Oddskarðsgöngin en hann kom lítillega að undirbúningi þeirra. Göngin eru á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar, en þau voru byggð á árunum 1972-1977. Þar var einn hæsti fjallvegur landsins, sem jafnan var erfiður vegna snjóþyngsla. Jarðgöngin voru því mikil samgöngubót fyrir Norðfirðinga og nærsveitunga á sínum tíma.

„Ég sá um að grafa fyrir aðstöðu fyrir vinnuflokkana og gera fært að vinnusvæðinu. Ég mokaði síðan út úr göngunum eftir fyrstu þrjár sprengingarnar. Menn gætu spurt sig að því í dag hvernig byggðin þarna hefði þróast hefðu göngin ekki verið gerð,“ segir hann en árið 2017 leystu Norðfjarðargöng Oddskarðsgöng af hólmi.

Tilviljun og tækifæri

Það var svo þann 2. janúar 1981 að Magnús hóf formlega störf hjá Vegagerðinni. Hann segir að eitt atvik hafi átt þátt í að hann lagði gröfunni og réði sig síðan í fasta vinnu hjá Vegagerðinni.

„Ég hafði unnið töluvert fyrir Rarik og kom meðal annars að lagningu línu fyrir Lagarfossvirkjun, sem er í Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði. Nokkrum árum áður en ég kom alfarið yfir til Vegagerðarinnar átti ég eitthvert erindi við Helga Gíslason, sem var héraðsstjóri hjá Vegagerðinni eins og það hét þá, og þurfti að fara heim til hans í þeim erindagjörðum. Helgi hafði bókhaldið á sinni könnu svo líklega var ég að skila til hans reikningi. Ég sagði honum að ég gæti fengið vinnu hjá Rarik og spyr í framhjáhlaupi hvort það yrði nokkuð að gera hjá Vegagerðinni um sumarið. Ég man að hann svaraði mér ekki neinu. Svo lauk ég erindinu, var kominn í skóna mína og var við það að fara út þegar hann segir: „Þú ferð ekki neitt, drengur!“. Úr varð að ég fór ekki neitt heldur hélt áfram að vinna að verkefnum fyrir Vegagerðina. Það þróaðist síðan á þann veg að ég hóf störf hjá Vegagerðinni nokkrum árum síðar. Helgi hætti árið 1981 og Guðni Nikulásson tók við sem rekstrarstjóri, eins og staðan hét þá. Ég kom inn í starf Guðna sem verkstjóri. Þegar hann hætti eftir um þrjátíu ára starf tók ég við sem yfirverkstjóri. Ég hef því aldrei sótt formlega um starf hjá Vegagerðinni. Stundum hugsa ég til þess að ef ég hefði ekki átt þetta erindi við Helga hefði ég kannski endað hjá Rarik,“ segir Magnús en ekki er efi í hans huga að þetta hafi verið rétt ákvörðun.

Fyrstu verkefnin sem hann sinnti hjá Vegagerðinni voru í sambandi við vetrarþjónustuna, svo sem snjómokstur og eftirlit. „Þegar minna var að gera úti á mörkinni var unnið innanhúss, t.d. við að mála stikur, sinna viðhaldi á vegavinnuskúrum og svoleiðis. Þeir sem voru að komast á aldur voru mikið í þessu og einnig að gera við það sem bilaði. Gárungarnir kölluðu þetta dauðadeildina, en þarna voru menn sem voru búnir að skila sínu og farnir að sjá fyrir endann á starfsævinni,“ rifjar Magnús upp.

Yfir sumartímann var alltaf meira en nóg að gera og Magnús var mest úti með vegavinnuflokka að vinna. „Við fórum oftast út í maí og unnum úti þar til veturinn skall á. Við vorum aðallega að byggja vegi og styrkja vegi. Á þessum árum var mikið um að keyra möl í vegina því á vorin voru nær allir vegir ófærir vegna drullu og ekkert hægt að komast áfram fyrir drullusvaði. Sumir vegir voru hálfgerðir moldarvegir og mikið var um moldarslóða. Vegagerð hefur breyst mikið frá því ég byrjaði að vinna við hana og það eiga eftir að verða enn meiri breytingar í framtíðinni. Ég vann mikið við að setja niður ræsi og gæti farið um allt héraðið og það svæði sem tilheyrir þjónustustöðinni og sagt þér hvað ræsin eru stór og hvar þau liggja því ég þekki þetta allt. Helstu breytingarnar eru að núna hafa verktakar tekið við þessum framkvæmdum og Vegagerðin sinnir margskonar þjónustu í staðinn,“ greinir hann frá.

Framfarir á fjörutíu árum

Í huga Magnúsar eru góðar samgöngur afar mikilvægar. „Mér fannst vegagerðin stundum ganga heldur hægt en þegar ég hugsa fimmtíu til sextíu ár aftur í tímann sé ég hvað það hafa orðið miklar framfarir. Að mínu mati er samt mikið enn eftir ógert og ég sé alltaf verkefni þegar ég er á ferðinni. Ef ég mætti ráða myndi ég láta bora jarðgöng um allt land í einum grænum hvelli, því þau eru þvílík samgöngubót. Jarðgöng stytta vegalengdir og vegna þeirra þarf ekki að keyra yfir fjöll í alls kyns veðrum. Fólk þarf að komast leiðar sinnar til að sækja ýmsa þjónustu. Ef samgöngur eru greiðar og hægt að komast með auðveldum hætti á milli staða þarf ekki að byggja upp þjónustu á mörgum stöðum,“ segir Magnús ákveðinn í bragði og bætir við að vegagerð sé ekki eins manns verk. „Það eru margir sem koma að vegagerð, bæði við að byggja vegi og halda þeim við.“

Árin hjá Vegagerðinni eru nú orðin fjörutíu talsins. „Ég var verkstjóri í þrjátíu ár og yfirverkstjóri í tíu ár. Ég er hættur núna en ég hef þó hlaupið aðeins undir bagga hjá þeim sem tók við af mér, eins og þegar hann fór í fæðingarorlof. Það kemur alltaf maður í manns stað og þetta unga fólk á alveg eftir að spjara sig,“ segir Magnús bjartsýnn.

Inntur eftir því hvað taki nú við þegar meiri tími gefst til að sinna áhugamálunum segist Magnús ekki verða í vandræðum með að finna sér eitthvað að gera.

„Vinnan hefur verið mitt aðaláhugamál og ég vil alltaf hafa eitthvað fyrir stafni. Undanfarið hef ég verið að leika mér með húsbíl sem við fjölskyldan notum til að ferðast á yfir sumartímann. Svo sagði ég núna um daginn að ég yrði að byrja á að byggja mér peningageymslu. Allir stjórnmálaflokkarnir ætla að hækka ellilífeyrinn og gera svo vel við eldri borgara, þannig að einhvers staðar verð ég að geyma þessa peninga,“ segir hann glettinn. „En að öllu gríni slepptu hef ég engar áhyggjur af því að verða verklaus. Kannski enda ég á sama stað og ég byrjaði, á bak við stýrið á gröfu.“

Þessi grein birtist í 6. tbl. Framkvæmdafrétta.   Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.