Fréttir
  • Í Álftafirði (61) á Vestfjörðum þar sem verið er að byggja upp nýjan veg og brú.
  • Jarðtæknibor og þjónustubíll að störfum í Álftafirði. Mynd/Oddur Jónsson
  • Sverrir Örvar Sverrisson verkefnastjóri á hönnunardeild, sem oftast situr fyrir aftan stýrið á IVECO bifreiðinni.
  • Fagurt er í Álftafirði. Mynd/Oddur Jónsson
  • Grafningsvegur (360). Verið að lagfæra vegkafla og byggja nýja brú yfir Villingavatn. Mynd/Oddur Jónsson
  • Hringvegur 1 við Skjálfandafljót. Þar á að byggja nýja brú í staðinn fyrir einbreiða brú.

Þjónustubíll fyrir jarðtæknibor Vegagerðarinnar

Jarðtæknirannsóknir veita mikilvægar upplýsingar

29.12.2020

Vegagerðin á fjölmörg farartæki af öllum stærðum og gerðum. Eitt þeirra er veglegur Iveco Daily sem búið er að breyta til að þjóna sem best jarðtæknibor Vegagerðarinnar og starfsmönnum.

„Það var gjörbylting í aðstöðu fyrir okkur þegar við fengum þennan bíl árið 2018. Áður vorum við með óbreyttan Ford 350 sem gat ekki fyllilega skilað því hlutverki að þjónusta jarðtækniborinn. Eftir að nýr jarðtæknibor Vegagerðarinnar kom árið 2012 varð aðal vinna þjónustubílsins að draga þunga kerru utan vegar. Oft festist bílinn við þessa iðju og fór stór hluti vinnutímans í að draga hann upp og þá stundum með hjálp bænda af nálægum bæjum og svo þurfti oft að kalla til verktaka til að hjálpa til með vatnsflutninga,“ segir Sverrir Örvar Sverrisson verkefnastjóri á hönnunardeild sem sinnir ásamt fleirum vinnu við jarðtæknibor Vegagerðarinnar.

Iveco bíllinn var keyptur notaður frá Kraftvélum árið 2018. Hann var upphaflega með palli en sá var tekinn af og smíðað vinnuhús undir búnað sem fylgir jarðtæknibornum sem og vinnu- og búninga aðstöðu. „Bíllinn er mjög lággíraður sem er mjög þægilegt þegar verið er að brasa utan vegar. Hann er á nokkuð stórum dekkjum en ekki breyttur nema að því leyti að stuðarinn var færður framar. Drifgetan er mjög mikil og driflæsingar eru allan hringinn. Hann kemst því nánast allt sem þarf og veldur minni umhverfisspjöllum.“

Megin verkefni trukksins er að draga stóra kerru með tveimur 1000 lítra vatnstönkum að bornum en töluvert vatn þarf þegar borað er í berg. Yfirleitt er vatni dælt úr lækjum nærri borstað og flutt að bornum. Oftast kemst bíllinn að bornum en ef aðstæður bjóða ekki upp á það er hægt að dæla úr tönkunum allt upp í hundrað metra leið.

Bíllinn er einnig útbúinn sem varabíll til að draga svokallað falllóð sem er mælitæki notað við mat á burðarþoli vega.

Jarðtæknirannsóknir veita mikilvægar upplýsingar

Jarðtæknihönnun fléttast inn í hönnunarferli vega, brúa og annarra samgöngumannvirkja með ýmsum hætti og því eru jarðtæknirannsóknir afar mikilvægar. Með þeim má afla upplýsinga um gerð og eiginleika jarðlaga undir vegstæði, til dæmis hve djúpt er niður á burðarhæfan botn, hvar klappir og grunnvatn liggja. Allt eru þetta hlutir sem geta haft áhrif á hönnun mannvirkis.

Borvagn Vegagerðarinnar er frá Geomachine, týpa GM75 GT, og var keyptur til Vegagerðarinnar 2012. Hann er um 3,5 tonn og er búnaðurinn fluttur í 20 feta gámi. Tveir bormenn vinna með borinn hverju sinni en verkefnin eru um allt land.

„Borinn er alhliða jarðtæknibor sem getur borað niður á 50 metra dýpi í lausum jarðvegi en sjaldan er þó borað lengra en 20 til 30 metrar. Í bergborunum er oft farið niður á 10 til 15 metra,“ segir Sverrir og bendir á að borinn geti sinnt stærstum hluta af þeim jarðtækniverkefnum sem Vegagerðin þarf á að halda. Með borvagninum er hægt að framkvæma fjölda boraðferða, til dæmis; snúnings- og þrýstiborun í mýkri jarðlög, heildarborun þar sem á skiptast hörð og mjúk jarðlög, CPT-borun í mjúk og laus jarðefni, höggborun, sýnatöku úr lausum efnum, sýnatöku úr mjúkum jarðvegi, bergborun og kjarnaborun.

„Borinn er þægilegur í notkun og hægt er að lesa heilmargt úr tölvu á meðan á borun stendur. Þar má til dæmis, þegar um bergborun er að ræða, sjá millilögin í berginu, fá vísbendingu um styrk og ýmislegt fleira,“ segir Sverrir. Að borun lokinni eru gögnin keyrð út og fara þá í hendur á hönnuði eða jarðfræðingi til frekari skoðunar.

Þessi grein birtist í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.