Fréttir
  • Kort sem sýnir framkvæmdasvæði og fyrirhugaðan veg um Teigsskóg
  • Tölvuteiknuð mynd af brúnni yfir Þorskafjörð.
  • Framkvæmdir í Gufufirði.
  • Tölvuteiknuð mynd af brúnni yfir Þorskafjörð.
  • Tölvuteiknuð mynd af brúnni yfir Þorskafjörð.

Styttir Vestfjarðaveg (60) um tæpa 10 km

Grein um þverun Þorskafjarðar í Framkvæmdafréttum

23.3.2021

Vegagerðin auglýsti í janúar þverun Þorskafjarðar, eitt stærsta útboðsverk ársins. Í verkinu felst nýbygging Vestfjarðavegar á 2,7 km kafla yfir Þorskafjörð og bygging 260 m langrar brúar.

Verkið ber heitið Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Kinnastaðir-Þórustaðir. Það snýst um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 2,7 km kafla við austanverðan Þorskafjörð, rétt sunnan við raflínuna sem þar liggur yfir. Byggð verður 260 m löng brú auk fyllingar. Vegurinn er alfarið byggður í nýju vegstæði en tengist núverandi Vestfjarðavegi í báða enda. Nyrðri endinn tengist við gamla veginn þar sem hann liggur upp Hjallaháls.

Tilboð voru opnuð 16. febrúar en Suðurverk hf. átti lægsta tilboðið upp á 2.078.354.246 krónur. Næst hæsta tilboðið átti Þróttur ehf. en aðrir sem buðu í verkið voru Þ G verktakar, Ístak hf. og Íslenskir aðalverktakar hf.

Gert er ráð fyrir að verktaki geti hafið framkvæmdir við undirritun samnings, líklega í mars eða apríl á þessu ári. Áætlað er að útlögn fyllingar/fargs verði lokið í lok júní á þessu ári en að smíði brúar og frágangi við hana verði lokið í lok september á næsta ári. Verkinu öllu á síðan að ljúka í júní 2024.

Verktíminn er rúm þrjú ár sem skýrist af því að fergja þarf botn fjarðarins sem er tímafrekt ferli. Vegurinn þarf þannig að síga áður en hægt verður að ganga frá honum í rétta hæð. Fergingu verður skipt í tvo áfanga til að loka firðinum ekki of mikið í einu, m.a. til að vernda marhálm á svæðinu og til þess að takmarka straumhraða og botnrof.

Þó fjörðurinn sé fremur grunnur fer talsvert efni í fyllingu og grjótvörn. Efnið verður fengið úr skeringum beggja vegna fjarðarins og úr nálægri námu.

Helstu magntölur vegagerðar eru:

- Bergskering í vegstæði     156.000 m3

- Bergskering í námu           15.500 m3

- Fyllingar                                5.700 m3

- Ónothæfu efni jafnað á losunarstað     48.800 m3

- Grjótvörn                36.700 m3

- Ræsalögn               70 m

- Styrktarlag             13.300 m3

- Burðarlag                5.300 m3

- Klæðing                   23.800 m2

- Vegrið                      2.750 m


260 metra brú

Brúin er í nýrri veglínu, 4,8 km suðvestan við núverandi brú á Þorskafjarðará. Yfirbygging brúarinnar er steypt eftirspennt bitabrú í sex höfum. Heildarlengd brúarinnar er 260 m. Akbraut verður  9 m breið og bríkur hálfur metri. Heildarbreiddin því 10 m. Stöplar brúarinnar eru steyptir og grundaðir á niðurreknum steyptum staurum allt að 23 m löngum.

Helstu magntölur brúarsmíðinnar eru:

- Grjótvörn                  1.300 m3

- Vegrið                          542 m

- Gröftur                      2.900 m3

- Fylling                       4.000 m3

- Niðurrekstrarstaurar   280 stk.

- Mótafletir                  5.400 m2

- Slakbent járnalögn  214.300 kg

- Spennt járnalögn      91.200 kg

- Steypa                         3.900 m3


Framkvæmdir ganga vel í Gufudalssveit

Þverun Þorskafjarðar er annar áfanginn í þeirri umfangsmiklu vegagerð sem framundan er með endurbótum Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Fyrsti áfanginn er 6,6 km kafli milli Skálaness og Gufudalsár í Gufufirði. Borgarverk hóf framkvæmdir við þann hluta síðastliðið haust en áætlað er að þeim ljúki í júní á þessu ári.

Þessi framkvæmd nýtist að fullu á meðan gamla leiðin er farin, en aðeins fyrsti hlutinn, 1,2 km, verður hluti af hinum nýja Vestfjarðavegi. Hinn hlutinn nýtist sem vegabætur þar til firðirnir verða þveraðir og vegur verður kominn í gegnum Teigsskóg en verður síðan tenging við Gufudal.

Borgarverk hóf framkvæmdir 25. september 2020 og hefur verið unnið við fyllingar, skeringar og ræsagerð. Efnisvinnsla er hafin á svæðinu fyrir styrktarlag og burðarlag. Kalt hefur verið í veðri síðastliðnar vikur og hefur því verktaki að mestu verið að vinna í skeringum utan vegstæðis þar sem frostlinsa, sem nær rúmlega 1 m niður, í núverandi vegi býður ekki upp á frekari vinnu fyrr en slaknar á frostinu.

Verktaki hefur nú komið niður alls 22 ræsum af 31. Ljóst er að einhver aukning mun verða í fyllingum en verktaki hefur þó lokið við stærsta hluta þeirra.

Verkið hefur gengið ágætlega og eru engar breytingar á fyrirhuguðum verklokum sem eru 15. júlí þó einstaka verkliðir hafi eitthvað riðlast til miðað við upphaflega verkáætlun. Covid hefur ekki haft nein áhrif á verkið sjálft nema þá í formi þess að flestir verkfundir eru fjarfundir.  

Næstu skref

Röðun framkvæmda í Gufudalssveit er aðeins önnur en upphaflega var lagt upp með. Ætlunin var að byrja hinum megin frá, á þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar og lagningu vegar á strönd Þorskafjarðar um Teigsskóg. Óvissa um framkvæmdaleyfi breytti forgangsröðun auk þess sem unnið hefur verið að samningum við landeigendur. Nýverið náðist samningur við landeigendur í Hallsteinsnesi en ennþá er ósamið við einn aðila.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti í október á síðasta ári framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Vestfjarðavegar eftir svokallaðri Þ-H leið, sem liggur um Teigsskóg og þverar Þorskafjörð, Gufufjörð og Djúpafjörð. Ekki er ljóst hvenær verður hægt að bjóða út þann kafla sem eftir stendur en vonir standa til að útboð verði á Djúpadalsleið og þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar á þessu ári.

Þessi grein birtist í 2. tbl Framkvæmdafrétta. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.