Fréttir
  • Verktakinn Norðurtak hefur þegar hafið vinnu við veginn yfir ána. Mynd/SHS
  • Tjarnará var hleypt í gegnum stokkinn 19. júní. Mynd/SHS
  • Vegurinn mun liggja rúmlega 10 metrum fyrir ofan stokkinn.

Stokkur fyrir Tjarnará tilbúinn

Vinna við veginn yfir ána hafin

21.6.2019

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar frá Hvammstanga hefur lokið við smíði 62 metra langs stokks fyrir Tjarnará á Vatnsnesvegi (711).

„Við hleyptum ánni í gegnum stokkinn 19. maí og lukum þá okkar hluta verksins,“ segir Sigurður Hallur Sigurðsson brúarsmiður.

Unnið hefur verið að smíði stokksins frá því í desember á síðasta ári og ýmsar þrautir verið lagðar fyrir brúarvinnuflokkinn sem hefur þurft að takast á við rysjótt veður og klakasprengjur.

Nú er þessum hluta verksins lokið og Norðurtak hefur þegar hafist handa við að byggja upp veginn yfir stokkinn. Mikið verk er fyrir höndum enda er gert ráð fyrir að vegurinn verði 10,5 metrum yfir stokknum og því mikið efni sem þarf til uppfyllingar. Gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið síðla hausts.