Fréttir
  • Umferðin við Gullfoss og Geysi
  • Umferðin á Lyngdalsheið

Sprenging í umferðinni á gullna hringnum

allt að áttatíu prósenta aukning á sumarumferðinni - eigi að síður er minna viðhaldsfé í ár en í fyrra

21.6.2016

Umferðin eykst um allt land svo sem komið hefur fram í fréttum Vegagerðarinnar. Algengar ferðamannaleiðir eru alls ekki undanskyldar. Reikna má með að í ár aukist umferðin um Gullfoss og Geysi um heil 70 prósent sem er fáheyrð aukning. Sama á við um Lyngdalsheiðina.

Það er augljóst að fjölgun ferðamanna til Íslands skilar sér beint í aukningu á umferðinni á gullna hringnum. Ekki annað en að sjá að þangað fari töluvert hátt hlutfall allra ferðamanna.

Gullfoss -- Geysir

Gríðarleg aukning mælist á umferð um teljara Vegagerðarinnar við Myrkholt við Gullfoss og Geysi. Það sem af er ári hefur umferðin á þessum stað aukist um 51%.  Ef umferðin hegðar sér svipað og undanfarin ár má búast við tæplega 70% aukningu á árdagsumferðinni (ÁDU sem er meðaltals umferð alla daga ársins) og vetrardagsumferðinni (VDU) en um 80% aukningu á sumardagsumferðinni (SDU).  Þetta er fáséð aukning á milli ára en þó verður hennar helst vart á einstaka stöðum á Suðurlandi.

Lyngdalsheiði og fleiri staðir

Búast má við mikilli aukningu umferðar á öllum gullna hringnum ekki bara á milli Gullfoss og Geysis.   Miðað við það sem liðið er af árinu 2016 má búast við eftirfarandi aukningu í ár miðað við síðasta ár:

 TeljariAukning 

Mosfellsdalur

20 %
Mosfellsheiði45 %
Gjábakki40 %
Lyngdalsheiði70 %
Gullfoss & Geysir70 %

Í venjulegu árferði mætti eiga von á að teljarinn á Lyngdalsheiði og við Gullfoss/Geysi væru bilaður en svo er ekki.

Varla þarf að minna á að fjármagn til viðhalds vega hefur ekki verið aukið neitt, þrátt fyrir sprengingu í umferð síðustu misseri. Þvert á móti er fjárveitingin á þessu ári 500 m.kr. lægri en var árið 2015.