Fréttir
  • Snjóblásari að störfum í Hófaskarði. Mynd/Þorsteinn Þórisson.
  • Snjóblásarar geta unnið sum verk sem snjóruðningstæki ráða ekki við. Mynd/Þorsteinn Þórisson
  • Snjóblásari á Hófaskarðsleið þann 5. mars síðastliðinn. Mynd/Þorsteinn Þórisson
  • Hófaskarð í dag. Guðmundur Fylkisson lögreglumaður ók á eftir snjóblásara og snjómoksturstæki BJ verktaka í morgun. Mynd/Guðmundur Fylkisson.

Snjó blásið í Hófaskarði

Fallegar drónamyndir

18.3.2020

Kafaldssnjór er á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Verktakar á vegum Vegagerðarinnar vinna nú hörðum höndum við að opna helstu vegi. Einn þeirra er Þorsteinn Þórisson einn eigenda BJ vinnuvéla á Þórshöfn. Hann er að moka Hófaskarðsleið þegar slegið er á þráðinn.

„Enn eitt óveðrið gerði í nótt og göngin sem búið var að blása urðu sneisafull og því ekki hægt að opna nema með blásara. Við lögðum af stað frá Þórshöfn klukkan 7 í morgun með snjóblásara og  snjómokstursbíl. Núna um klukkan eitt erum við alveg að verða komnir að Raufarhafnarafleggjara,“ segir Þorsteinn og lýsir því að göngin séu aðeins einbreið en með útskotum á nokkrum stöðum svo bílar geti mæst.

Þorsteinn segir mikið hafa verið að gera undanfarnar vikur og jafnvel mánuði enda veðrið með versta móti. „Það hefur allt verið á kafi í snjó í febrúar og mars. Við höfum lítið fengið fengið frí nema þegar veðrið er sem verst og ekkert hægt að gera,“ segir hann en bætir þó við að vinnan sé yfirleitt frekar þægileg. „En það mætti alveg fara að koma smá hlé,“ viðurkennir hann.

Þorsteinn, sem á BJ vinnuvélar með föður sínum Þóri Jónssyni, hefur leikið sér dálítið að því að taka myndir með dróna. Þann 5. mars síðastliðinn var veður með besta móti og þá náði hann flottum myndum af föður sínum við störf á snjóblásara í Hófaskarði. Myndirnar má sjá hér til hliðar.

Ein myndanna er þó eftir Guðmund Fylkisson lögreglumann sem hefur verið í afleysingum á Þórshöfn undanfarið. Hann var á leið heim til Reykjavíkur í morgun og fékk að aka í kjölfar tækjanna frá Þorsteini.