Fréttir
  • Meðalhraðaeftirlit rannsóknarskýrsla
  • Meðalhraðaeftirlit rannsóknarskýrsla

Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit

fækkar slysum meira en punktaeftirlit

21.8.2017

Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit á þjóðvegum fækkar slysum töluvert meira en núverandi kerfi myndavéla, samkvæmt nýrri skýrslu sem verkfræðistofan Mannvit hefur unnið fyrir Vegagerðina í gegnum rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar. Slíkt kerfi myndi borga sig upp á mjög skömmum tíma. Verkefnið var tvískipt og fyrst rannsakað hvaða kaflar ættu að fara í forgang. Síðan voru nokkrir þeirra kafla rannsakaðir frekar og þeir kostnaðarmetnir.

Skýrslurnar er að finna á vef Vegagerðarinnar.

Nýlega var gerð tilraun með sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit á kafla á Hringveginum og tókst það vel. Ekkert ætti að vera því lagalega til fyrirstöðu að koma upp meðalhraðaeftirliti hér á landi. Það felur í sér að tekin er mynd af bíl á leið inn á svæðið og síðan aftur út af því, þá er reiknaður meðalhraðinn og sé hann hærri en leyfilegt er, er sektað.

Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit á lengri vegarköflum (um 10 km) kemur vel út, þar voru áhrif á hraða metin þrisvar sinnum meiri, með tilliti til hraðaminnkunar og umferðaröryggis, en með sjálfvirku punkthraðakerfi.  

Vísað er til norskrar rannsóknar frá árinu 2014 þar sem kemur í ljós að eftir uppsetningu meðalhraðakerfis hafi fækkun í fjölda látinn og alvarlegra slasaðra verið metin 49-54 prósent og eftirlitið hafði áhrif allt að 3 km fyrir og eftir myndavélarnar.

Rannsóknarverkefnið er hugsað sem grunnur að innleiðingu sjálfvirks meðalhraðaeftirlits og gæti orðið hluti af umferðaröryggisáætlun stjórnvalda en skoðaðir voru kaflar á Grindavíkurvegi, Hringveginum, Akrafjallsvegi og Ólafsfjarðarvegi. 

Skýrslan: Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit - hugsanleg innleiðing
Áfangaskýrslan: Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit - Val á vegköflum og mat á ávinningi