Fréttir
  • Sigið niður að Þrídrangavita.

Sinna viðhaldi vita í misjöfnum aðstæðum

Skemmtilegt myndband af störfum vitadeildar Vegagerðarinnar

8.5.2019

Guðmundur hefur leikið sér að myndbandsupptökum í nokkurn tíma og fjárfesti í GoPro myndavél á síðasta ári. „Ég setti bara myndavélina á hausinn og lagði svo í hann. Ég á því töluvert magn af efni en þetta myndband er brot af því besta sem ég tók upp á ferðum okkar í fyrra,“ segir Guðmundur en tekur fram að hann hafi einungis myndað í góðu veðri. „Veðrið er nú sjaldan svona gott.“

Guðmundur hafði hugsað sér að taka upp efnið til að sýna það rafvirkja sem til stóð að ráða, svo hann gæti gert sér í hugarlund út á hvað starfið gengi. „Svo langaði mig líka að sýna samstarfsfólki mínu hvað það er sem við erum að fást við.“

Út á hvað gengur vinnan? „Í sjóferðunum í kringum landið förum við í 36 vita sem allir nema einn eru sólarorkuvitar. Við  mælum ástand á rafgeymum og tökum ákvörðun út frá því hvað gert verður á næsta ári. Við skiptum um þær perur sem eru farnar og prófum allan búnað og athugum hann. Ef farið er að sjá á honum skrifum við það hjá okkur og skiptum um í næstu ferð.“

Í sumar verður til dæmis skipt um rafgeyma á tveimur stöðum og er það mikil erfiðisvinna. „Það þarf að skipta um 15 rafgeyma á hvorum stað og hver rafgeymir er 23 kíló. Þeir sem fluttir eru í burtu eru ekkert léttari,“ segir Guðmundur en sjóferðirnar eru yfirleitt mikið púl. „Við vinnum þá frá morgni til kvölds og erum alveg búnir á því. Eiginlega þyrfti maður frí á launum í tvo daga til að jafna sig,“ segir hann glettinn.

Veðrið á Íslandi er ekki alltaf árennilegt. Eru þessar ferðir stundum hættuspil? „Nei, við erum mjög meðvitaðir um að fara ekki út í tvísýnu og það voru nokkrir vitar sem við slepptum í sjóferðinni í fyrra þar sem aðstæður voru of erfiðar.“

Erfiðustu vitarnir sem þarf að sinna eru á Geirfuglaskeri og Þrídröngum en þangað þurfa viðgerðarmennirnir að síga úr þyrlu. Guðmundur segir það ekki mikið mál. Maður finnur það strax þegar maður er í kringum þessa menn hjá Landhelgisgæslunni að maður er í öruggum höndum.“

Myndband Guðmundar má sjá hér. 

https://youtu.be/t6msu6wrGjA