Fréttir
  • Glappahömlur er safnheiti fyrir hverskonar búnað sem á að varna því að farartæki eða fótgangendur fari afleiðis. Víravegrið falla undir þann flokk.
  • Vegorðanefndin f.v. Eymundur Runólfsson, Gunnar Bjarnason, Sigurður Björn Reynisson, Kristján Kristjánsson og  Ásbjörn Jóhannesson. Á myndina vantar Pál Valdimar Kolka Jónsson.
  • Pál Valdimar Kolka Jónsson vantar á myndina hér að ofan.

Sífellt stækkandi vegorðasafn

2218 fagorð

19.11.2019

Hvað eiga orðin aðkomusteinn, buldurspölur, fangbraut, umferðarglapp, glappahömlur og veghlot sameiginlegt? Jú, þau er öll að finna í Vegorðasafni Vegagerðarinnar. Vegorðasafnið er æði merkilegt safn sem á sér djúpar rætur en í því er að finna mörg helstu hugtök sem notuð eru við vegagerð og hafnargerð.

Vegorðanefnd er ein af fjölmörgum orðanefndum landsins en 30. október síðastliðinn var haldið upp á 100 ára afmæli orðanefnda á Íslandi. Orðanefnd verkfræðingafélags Íslands var sú fyrsta, stofnuð 1919 og er því nánast jafngömul Vegagerðinni, sem var stofnuð árið 1918 en fyrsti vegamálastjórinn Geir Zoega var meðlimur í þeirri orðanefnd

„Árið 1980 var endurvakin Orðanefnd byggingarverkfræðinga undir forystu Einars B. Pálssonar verkfræðings og prófessors sem leiddi störf nefndarinnar fram yfir aldamót,“ lýsir Gunnar Bjarnason, forstöðumaður jarðefnadeildar Vegagerðarinnar sem leiðir starf Vegorðanefndar í dag. Vinna Vegorðanefndarinnar hófst árið 2011 en þá var farið að skrá í gagnagrunn og yfirfara hugtök sem Orðanefnd byggingarverkfræðinga hafði skilgreint.

Í dag eru í Vegorðanefndinni Gunnar Bjarnason, Kristján Kristjánsson, Eymundur Runólfsson, Ásbjörn Jóhannesson, Sigurður Björn Reynisson og Páll Valdimar Kolka Jónsson.

Vegorðasafn á stafrænu formi

Árið 2012 urðu vatnaskil í starfi Vegorðanefndar þegar ákveðið var að koma Vegorðasafninu á stafrænt form. „Við Kristján Kristjánsson lögðum til við yfirstjórn Vegagerðarinnar að skanna inn skjöl gamla orðasafnsins og færa í nýjan gagnagrunn, Vegorðasafnið, og halda síðan áfram nýskráningum,“ segir Gunnar en frá árinu 2012 hefur fjöldi íðorða um það bil tvöfaldast í safninu, en íðorð eru sérfræðiorð/fagorð í tiltekinni fræði- eða atvinnugrein. Vegorðasafnið er skráð á Oracle Apex vefsíðu sem nýlega var uppfærð til nýrrar útgáfu; hönnuðir vefsíðunnar eru Grétar Óli Sveinbjörnsson og Sigurður Björn Reynisson.

Markmið safnsins er að ná yfir öll helstu hugtök sem notuð eru við vegagerð og hafnagerð. Safnið er að finna á vefslóðinni https://vegordasafn.vegagerdin.is. Allir hafa aðgang að safninu og er notkun þess mjög auðveld. Fletta má orðum upp og á eftir hverju orði kemur skilgreining á hugtakinu og nánari skýring þar fyrir neðan. Einnig fylgja ensk og norsk hugtök sömu merkingar.

Íðorðin eru flokkuð í ellefu flokka; eftirlit, grjótnám og jarðgöng, jarðfræði
og jarðtækni, sjóleiðir, steypu-, stál- og trévirki, stjórnsýsla, tæki og áhöld, umferð og umferðaröryggi, umhverfi, vega og hafnahönnun og vegbúnaður og vegnánd.

Sífellt bætast við ný orð

„Í dag eru 2218 íðorð í safninu sem hafa verið samþykkt af Vegorðanefnd og mörg önnur eru í farvatninu,“ segir Gunnar en Vegorðanefnd heldur vikulega fundi yfir vetrartímann og vinnur að skilgreiningum og skýringum nýrra íðorða. „Verkefni sem þetta er viðvarandi enda sífellt að bætast við ný orð og hugtök um vegagerð og rekstur vega,“ útskýrir Gunnar.

Hann tekur dæmi um nokkur af þeim orðum sem nefndin tók fyrir á nýlegum fundum. „Þetta eru hugtök sem voru tekin fyrir vegna fyrirspurnar frá Svanhildi Jónsdóttur hjá VSÓ Ráðgjöf vegna skýrslu sem hún vann að og nefnist „Borgarlína og umferðaröryggi“.

 

Jaðarlæg sérrein – sérrein hægra megin við akbraut fyrir almenna umferð.

Miðlæg sérrein – sérrein á milli akbrauta fyrir almenna umferð.

Samflotsrein – sérrein, heimil til aksturs bíla með lágmarksfjölda farþega.

Hraðvagnakerfi – samgöngukerfi fyrir greiðan akstur almenningsvagna

 

Þeir sem vilja glöggva sig á fleiri orðum á borð við  akreinarferill, eiginsveifla, hámarksgræntími, ísvarnarjárn, kjaftbrjótur, löss, marbakki, rekþil, saumskemmd, titurplata og  þríreinungur geta leitað í Vegorðasafnið.