Fréttir
  • Sandfangarinn í Vík í Mýrdal
  • Sandfangarinn í Vík í Mýrdal ágjöf
  • Sandfangarinn í Vík í Mýrdal

Sandfangarinn í Vík í Mýrdal

ver ströndina við Vík

30.11.2017

Unnið er að gerð og viðhaldi sandfangara við Vík í Mýrdal þessa dagana. Sandfangaranum er ætlað að verja ströndin við þorpið en að öðrum kosti vinnur sjórinn stöðugt á landinu. Eftir Kötlugosin 1918 gekk fjaran fram um eina 500 til 600 m allt fram til um 1970. Þá byrjaði rofið og hafði náð um 350 til 450 m þegar fyrri sandfangarinn var byggður árin 2011-2012. Rofið nam því um 10 m á ári að jafnaði á tímabilinu.

Sandfangarinn hefur sannað gildi sitt og stöðvað landrof á svæðinu milli sín og Reynisfjalls. Nú er einnig verið að reisa annan austar sem á að verja landið milli sandfangarana tveggja, en áfram er ströndin óvarin austar.

Með því að reisa garð beint út frá ströndinni stöðvast sandflutningar með ströndinni vestan við garðana, þar sem suðvestan aldan nær ekki að fanga sandinn og flytja til austurs.

Á þriðju myndinni má sjá báða sandfangarana. Sá sem var byggður árin 2011-2012 er nær á myndinni. Hann hefur látið á sjá, og verður gert við hann. Þótt hann hafi að einhverju leyti horfið sjónum manna þá þjónar hann eigi að síður tilgangi sínum. Nýi garðurinn er fjær og verður um 200 metra langur. Stærsta grjótið á enda garðsins verður um 20 tonn af þyngd. Nokkuð langt þarf að fara til að ná í grjót til að verja garðinn eða um 25 km leið á Eystri Sólheimaheiði. 

Það er verktakafyrirtækið Suðurverk hf. sem vinnur verkið en þeir hafa mikla reynslu af byggingu brimvarnargarða á suðurströndinni, enda byggðu þeir Landeyjahöfn, leiðigarðinn við Hornafjarðarós og garðana sem skýla Grindavíkurhöfn.

Þórir Níels Kjartansson tók myndirnar sem birtast með þessari frétt.