Fréttir
  • Davíð Þorláksson og Bergþóra Þorkelsdóttir

Samningur um verkefni Samgöngusáttmálans

Vegagerðin og Betri samgöngur undirrita samninginn

7.4.2021

Vegagerðin og Betri samgöngur hafa undirritað samkomulag um framkvæmd verkefna Samgöngusáttmálans sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu undir árið 2019. Samningurinn felur í sér verkaskiptingu aðilanna en Vegagerðin mun annast undirbúning, hönnun og verklegar framkvæmdir en Betri samgöngur fara með yfirumsjón og eigendaeftirlit og tryggja fjármögnun.

Ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu undir Samgöngusáttmála árið 2019 þar sem ákveðið var að fara í 120 milljarða króna fjárfestingu á 15 ára tímabili í samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu. Betri samgöngur ohf. voru stofnaðar í lok ársins 2020 til að hrinda þessum verkefnum í framkvæmd í samstarfi við Vegagerðina og sveitarfélögin og annast fjármögnun þeirra. Betri samgöngur og Vegagerðin hafa nú undirritað rammasamning um framkvæmd þessara verkefna.

Betri samgöngur munu fara með yfirumsjón og eigandaeftirlit með uppbyggingu samgöngumannvirkjanna gagnvart Vegagerðinni og að tryggja fjármögnun verkefna í samræmi við samþykktir Alþingis og sveitarfélaga. Vegagerðin mun annast undirbúning, hönnun og verklegar framkvæmdir sem ráðist verður í og mun hafa samráð við viðkomandi sveitarfélög.

Verkefni Samgöngusáttmálans snúa jafnri uppbyggingu innviða fyrir alla samgöngumáta. Þeir eru: (a) Stofnvegir, (b) Borgarlínan, (c) hjóla- og göngustígar, (d) umferðaröryggi, -flæði og -stýring og (e) göngubrýr. Til að tryggja skilvirkni og gott samstarf aðila við undirbúning og framkvæmdir verða stofnaðar verkefnastofur eða verkefnateymi um einstök verkefni. 

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna undirrituðu samninginn.