Fréttir
  • Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar verður rafræn í ár en henni verður varpað beint úr Hörpu.

Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar verður rafræn

Streymt beint úr Hörpu

7.10.2020

Í ljósi nýrra vendinga í þjóðfélaginu hefur verið ákveðið að Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar verði rafræn í ár. Nánari upplýsingar um skráningu, útfærslu og dagskrá koma von bráðar.

Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar verður haldin í 19. sinn föstudaginn 30. október næstkomandi. Ráðstefnan hefur skapað sér sérstöðu í ráðstefnuhaldi hér á landi því fáar ráðstefnur bjóða upp á jafn fjölbreytileg umfjöllunarefni. Ætíð kennir margra grasa á ráðstefnunni enda tekin fyrir um 20 rannsóknarverkefni hverju sinni. Styrkur rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar hefur legið í því að styrkja verkefni á mjög breiðu fræðasviði þar sem ekki endilega er einblínt á hefðbundna vegagerð. Verkefnin falla þó undir fjóra almenna flokka sem eru: mannvirki, umferð, umhverfi og samfélag.

Ráðstefnan hefur alla jafna verið fjölsótt af starfsmönnum Vegagerðarinnar, starfsmönnum ráðgjafa- og verkfræðistofa, verktaka og almennra áhugamanna um samgöngur og rannsóknir.

Á ráðstefnunni í ár verður mest fjallað um rannsóknir sem fengu fjárveitingar úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar árið 2019 en þó er það ekki einhlítt.