Fréttir
  • Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar 2017

Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar 2017 tókst vel

Aldrei fleiri sem hafa skráð sig

31.10.2017

Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar var haldin í 16. sinn föstudaginn 27. október sl. í Hörpu og var almenn ánægja með ráðstefnuna. Kynnt voru alls 19 rannsóknaverkefni sem er þó bara hluti þeirra verkefna sem er í gangi hjá Vegagerðinni hverju sinni. Erindin voru að vanda mjög fjölbreytt enda eru rannsóknaverkefnin af ýmsum toga.

Ágrip og glærur frá öllum erindum má finna á síðu ráðstefnunnar og þar er líka að finna fjölda mynda frá henni. Fleiri voru skráðir á ráðstefnuna en nokkru sinni fyrr eða rétt ríflega 200 manns. Þannig að áhugi á ráðstefnunni eykst ef eitthvað er. 

Erindin fjölluðu t.d. um endurvinnslu steypu í burðarlögum vega, yfirborðsmerkingar, brotholur í malbiki, stífnieiginleika jarðvegs, leiðsögu með gervitunglum, kortlagningu veghita, tengingu hjólaneta, plast í slitlögum, umhverfisvitund og endurheimt votlendis. Það er víða komið við.

Í tvö ár í röð hefur ráðstefnan verið haldin daginn fyrir kjördag en hver staðan í stjórnmálunum verður að ári er óljóst en hins vegar víst að um mánaðamótin október-nóvember verður 17. ráðstefnan haldin.