Fréttir
  • Linda Björk Árnadóttir öryggisstjóri Vegagerðarinnar.
  • Varnarbifreið með höggdeyfandi árekstrarvörn eru að verða æ algengari öryggistæki hjá Vegagerðarfólki.
  • Unnið að holuviðgerðum.
  • Brúarvinnuflokkar vinna oft við erfiðar aðstæður.
  • Hlaðbær Colas setti upp skilti við vinnusvæði sín í sumar þar sem vegfarendur voru minntir á að pabbar og mömmur væru við störf á götunni og mikilvægt að fara varlega.
  • Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar vinnur að viðgerðum á Blönduósbrú.

Oft skollið hurð nærri hælum

Öryggi starfsmanna á vegum úti hefur verið bætt mikið síðustu ár en betur má ef duga skal.

28.8.2019

Fjölmargir starfsmenn Vegagerðarinnar vinna á vegum úti, oft í miklu návígi við hraða umferð. Starfsmenn þjónustustöðva um land allt leggja sig í hættu dag hvern við holuviðgerðir og annað viðhald á vegum, brúarvinnuflokkar vinna á brúm, oft einbreiðum við erfiðar aðstæður, og þeir sem vinna við eftirlit þurfa að vera í nálægð við framkvæmdir og vegi.

Starf öryggisstjóra Vegagerðarinnar, Lindu Bjarkar Árnadóttur, felst í því að auka öryggi starfsmanna Vegagerðarinnar eins og kostur er. Hún segir margt hafa áunnist en enn sé mikið verk að vinna.

„Hjá Vegagerðinni eru til vinnureglur um notkun persónubúnaðs, öryggisbúnaðs og vinnufatnaðar. Til dæmis er hjálmskylda þegar unnið er á vegi, vegsvæði eða framkvæmdasvæði. Menn verða einnig að vera í sýnileikafatnaði og eru þar ákveðnir staðlar sem þarf að uppfylla, það er, nota þarf ákveðinn búnað við tilteknar aðstæður,“ lýsir hún og bætir við að þó hér sé rætt um starfsmenn á vegum úti hugi hún einnig að öryggi starfsmanna sem vinni utan vega. „Til dæmis vinna vitaflokkar og rafvirkjar oft í hættulegum aðstæðum.“

Hún segir mikla framför hafa orðið á síðustu fimm til sex árum hvað varður öryggi og megi það að stórum hluta þakka ábendingum frá starfsfólki sjálfu. „Menn sem hafa unnið lengi við fagið eru orðnir vanir því að vera í stöðugri hættu en æ fleiri eru að átta sig á mikilvægi þess að gæta betur að örygginu enda eigum við bara þetta eina líf,“ segir Linda og bætir við að hurðin hafi of oft skollið nærri hælum. „Oft hefur legið við stórslysi og það eru fjölmargar sögur af því, og við erum með skráð tilvik um að speglar á bílum hafi rekist utan í starfsmenn.“

Ein af þeim nýjungum sem teknar hafa verið í notkun eru varnabifreiðar með höggdeyfandi árekstrarvörn (TMA), svokallaðir öryggispúðar. „Púðarnir eru misstórir og eru ýmist festir aftan á vörubíla eða minni bíla, eftir því hvort unnið er á umferðarmiklum vegum eða vegum með minni umferð,“ lýsir Linda. Á púðunum eru hraðaskilti til að hægja á umferðinni. Ef ekið er á púðann gefur hann eftir eins og harmonikka og ver þannig starfsmenn sem eru að störfum fyrir framan bílinn. „Menn upplifa sig miklu öruggari að nota þessa púðabíla og vilja orðið helst ekki fara neitt nema með þá, sérstaklega í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem hraðinn er gríðarlega mikill.“

„Afi minn vinnur hér“

Linda Björk segir ökumenn engan veginn taka nægt tillit til starfsmanna á vegum úti. „Vegagerðarbílar eru útbúnir blikkljósum en menn slá ekkert af þó ekið sé framhjá þeim. Og þó sett séu upp hraðaskilti bruna menn framhjá á yfir hundrað kílómetra hraða.“

Hún segir þurfa vitundarvakningu meðal almennings og í því augnamiði hefur verið stofnaður vinnuhópur innan Vegagerðarinnar sem mun í samvinnu við Samgöngustofu og verktaka Vegagerðarinnar útbúa kynningar- og fræðsluefni. „Við horfum þar til dönsku Vegagerðarinnar sem var með vel lukkaða auglýsingaherferð þar sem vegfarendur voru minntir á að starfsmenn á vegum úti eru mömmu, pabbar, afar, ömmur, frænkur og frændur,“ lýsir Linda.

Hún bendir á að verktakarnir Ístak og Hlaðbær Colas séu nú þegar farnir af stað með svipað átak og hafi stillt upp skiltum í þessum anda á vinnusvæðum sínum í sumar.

Mikilvægt að tæknivæðast

En hvernig sér hún framtíðina fyrir sér í öryggismálum? „Minn draumur er auðvitað að það verði engin slys, en slys gera ekki boð á undan sér og því verðum við að gera ráðstafanir og vera með öflugt forvarnar- og fræðslustarf. Lang best væri þó að taka starfsmenn alveg af vegunum.“

Er það hægt? „Klárlega í sumum verkefnum eins og að fylla í holur sem er mjög algengt verk. Mikil pressa er á mönnum að fara fljótt af stað með bikkerrur til að fylla í holurnar enda geta þær skapað hættu og skemmdir á bílum. Við það verkefni eru menn óvarðir á miðjum vegi. Þetta mætti leysa með betri tækjabúnaði. Vegagerðin á til dæmis einn holuviðgerðarbíll sem hefur reynst mjög vel. Þar situr starfsmaður í bíl, varinn frá umferðinni,  og fyllir í holur með sérútbúnum rana. Það eru til alls konar tæki sem eru öruggari og auðvelda auk þess mönnum verkin. Ég held því að meiri tæknivæðing sé svarið til að auka öryggi.“