Fréttir
  • Fjárveitingar til þjónustunnar
  • Fjárveitingar til viðhaldsins

Ófremdarástand malarvega

Fjárveitingar einungis helmingur af lágmarksþörf

23.6.2016

Það fer ekki framhjá þeim sem aka á malarvegum landsins að það skortir víða mikið á viðhald og þjónustu við þá vegi. Fjárveitingar skortir sárlega hvorttveggja til viðhalds og þjónustu svo sem heflunar. Sé tekið dæmi af norðursvæði Vegagerðarinnar þá eru fjárveitingar einungis 50% af lágmarksþörfinni. Þannig eykst vandinn með hverju ári og ekki bætir úr verulega aukinn akstur ferðamanna, líka á þeim vegum sem áður sáu fáa bíla yfir daginn, á malarvegunum.

Fjárveitingar til þjónustunnar, vetrarþjónustu og sumarþjónustu, voru langt undir þörf árin 2010-2015, m.a. vegna erfiðra vetra, en hluti af því hefur verið bætt upp með tilfærslu af öðrum liðum eða á fjáraukalögum. (sjá línuritin sem fylgja fréttinni. Sama á við um viðhaldið þótt stjórnvöld hafi sýnt því skilning  með því að auka fjárveitingar til viðhalds að vissu marki en það hefur alls ekki dugað til þess að sinna nauðsynlegu viðhaldi. Þar eykst því vandi framtíðar með ári hverju. Viðhaldi sem ekki er sinnt í ár verður að sinna í framtíðinni. Auk þess eldist vegakerfið með hverju árinu sem líður og byggist upp þörf til uppbyggingar vega, breikkunar og styrkingar umfram venjubundið viðhald.

Vegagerðin hefur metið það svo að mikilvægast væri að verja vegakerfið sem er með bundnu slitlagi, verði það ekki gert er hætta á að stórir kaflar gætu hreinlega hrunið og þá myndi kostnaðurinn við endurbyggingu eða björgun á þeim vegum verða margfaldur á við að sinna viðhaldinu. Það hefur leitt til þess að viðhald malarveganna hefur orðið enn minna en ella. Sama á við um vetrarþjónustuna, dýrir vetur og takmarkaðar fjárveitingar hafa komið niður á sumarþjónustunni en í henni felst m.a. heflun, mölburður og rykbinding malarvega. Mölburður er ofaníburður til að bæta malarslitlagið en víða er svo komið að það vantar efni í vegina og tilgangslaust að hefla, þar sem ekkert er.

Nú er svo komið að viðhald malarveganna verður erfiðara með hverju ári, eftir því sem þetta ástand varir lengur. Ekki síst á þetta við um héraðsvegina sem eru vegirnir heim að sveitabæjum, að atvinnufyrirtækjum, kirkjustöðum, skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis. Tökum dæmi af norðursvæði Vegagerðarinnar.

Á svæðinu eru 1750 km malarvega ( þar af héraðsvegir 803 km, tengivegir 842 km og stofnvegir 105 km). Í ár eins og endranær var gerð áætlun um mölburð, heflun og rykbindingu þessara vega (miðað við skilgreinda þörf en þar vegur umferðarþungi mest). Heildaráætlunin hljóðaði upp á 600 mkr. Þegar fjárheimildir viðhalds og þjónustu birtust í vor var aftur sest niður og fyrri áætlun endurskoðuð miðað við það fé sem veitt var til þjónustu, skv. ákvörðun Alþingis á fjárlögum, og var skipt niður á fjögur svæði Vegagerðarinnar. Niðurstaðan eftir þá endurskoðun leiddi í ljós að norðursvæðið hefur til mölburðar, heflunar og rykbindingu þessara 1750 km malarvega um helming þarfarinnar og hafa þjónustustöðvarnar því 50% af þörf til að sinna þessum verkefnum.

Það þýðir að þar sem þyrfti til dæmis að minnsta kosti að hefla einu sinni í sumar verður það ekki hægt, þar sem þörf er á heflun 2-3 sinnum á sumri vegna umferðar verður kannski hægt að hefla einu sinni. Sama á við um mölburð og rykbindingu. Þetta er ófremdarástand.

Síðan bætist við þessa mynd að umferð eykst gríðarlega þessi misserin, reyndar bæði vetur og sumar. Þar sem áður fór einungis mjólkurbíllinn um sveitina og fáeinar ferðir heimamanna í viku hverri aka nú tugir ferðamanna og jafnvel hundruð þeirra. Allt eykur það álagið á vanbúið malarvegakerfið. Það sést vel á umkvörtunum vegfarenda sem Vegagerðin verður svo sannarlega vör við en getur lítið gert í nema reyna að benda fólki á að allt það fé sem Vegagerðin fær til þessara verkefna er nýtt til þeirra en það dugir einfaldlega engan veginn til og ástandið mun ekki batna á næstu árum nema breyting verði þar á.


Súluritin
Á súluritunum sem fylgja fréttinni má sjá fjárveitingar til þjónustunnar og viðhaldsins frá árinu 2000. Rétt er að ítreka að stærstur hluti fjármagnsins til þjónustunnar fer til vetrarþjónustunnar, í snjómoksturinn og hálkuvarnirnar. Mun minna hlutfall fer til sumarþjónustunnar. Rauður hluta súlanna á í þjónustunni sýna annarsvegar millifærslur á milli liða hjá Vegagerðinni, þar sem þjónustan hefur fengið fjármagn sem upphaflega var ætlað í annað og/eða fjárveitingu á aukafjárlögum.