Fréttir
  • Nýi Herjólfur hefur siglt til Landeyjahafnar í 73 prósentum tilvika frá því hann byrjaði siglingar í ágúst 2019.
  • Tafla1: Samanburður milli Herjólfs III og nýja Herjólfs frá upphafi siglinga til Landeyjahafnar. Tímabil Herjólfs III er 2010-2019. Tímabil á nýja Herjólfi er 2019 (ágúst) – 2021 (maí).
  • Tafla 2: Veturinn 2019-2020 borinn saman við veturinn 2020-2021. Tímabilið er 1. maí – 30. apríl hvert ár.
  • Nýlega er lokið uppsetningu á nýjum fenderum í Landeyjahöfn en fenderar verja bæði skip og bryggju fyrir hnjaski.

Nýr Herjólfur stórbætir nýtingu á Landeyjahöfn

Herjólfur III sigldi til Landeyjahafnar í 51,4 prósentum tilvika

15.7.2021

Nýting nýja Herjólfs á Landeyjahöfn síðasta vetur var um 90 prósent, ef með eru taldir dagar þar sem siglt er hálfan daginn. Þetta er svipuð nýtni og var gert ráð fyrir þegar höfnin var byggð.

Nýi Herjólfur hefur siglt til Landeyjahafnar í 73 prósentum tilvika frá því hann byrjaði siglingar í ágúst 2019. Fyrirrennari hans, Herjólfur III, sigldi til Landeyjahafnar í 51,4 prósentum tilvika frá því Landeyjahöfn var opnuð árið 2010 og þar til nýtt skip tók við.

Nýi Herjólfur hefur bætt nýtingu sína á Landeyjahöfn töluvert með aukinni reynslu skipstjórnenda á skipinu. Þannig var nýting skipsins á Landeyjahöfn 70 prósent veturinn 2019 til 2020 en 80 prósent veturinn 2020-2021. Ef hálfir dagar eru einnig teknir með í jöfnuna er nýtingin komin rétt yfir 90 prósent.

Siglingar með nýja Herjólfi hófust í ágúst 2019. Upp komu ýmsir hnökrar á skipinu sem voru lagfærðir haustið 2019. Einnig tók það skipstjóra tíma að öðlast reynslu við stjórn skipsins og að læra á takmörk þess. Í töflu 2 má sjá hvernig nýting skipsins á Landeyjahöfn eykst milli ára.

Minna mál að dýpka höfnina

Minna hefur þurft að dýpka Landeyjahöfn í vetur en veturna á undan. Veturinn 2020-2021 (september til maí) var dýpkun 236.000 m3 og ólíklegt að dýpka þurfi meira fyrr en í haust. Á meðalvetri árin á undan hefur meðaldýpkun verið um 350.000 m3.

Töluvert einfaldara er að dýpka höfnina núna eftir að nýi Herjólfur hóf siglingar. Herjólfur III ristir dýpra og því þurfti einnig að dýpka meira framan við höfnina, neðar en náttúrulegt dýpi sem varð til þess að fljótt fylltist upp í það sem dýpkað var.

Þess má geta að sama ár og Landeyjahöfn opnaði árið 2010 varð eldgos í Eyjafjallajökli. Það hafði mikil áhrif á aðstæður í höfninni. Við gosið færðist ströndin utar enda bættust við 100.000.000 m3 af efni við og náttúrulegt dýpi í kringum höfnina varð grynnra en áður og í meira ójafnvægi. Nú standa vonir til að sandflutningur á svæðinu sé kominn í meira jafnvægi.

Rýnt í gögn um Landeyjahöfn

Vegagerðin vinnur að því að taka saman öll gögn sem til eru um Landeyjahöfn og greina þau. Þetta eru fyrstu skrefin sem eru farin eftir leiðarvísi sem varð til við óháða úttekt Vatnaskila/Mannvits á Landeyjahöfn. Reiknað er með að þeirri vinnu ljúki vorið 2022. Þá verður einnig komin reynsla af öðrum vetri og meiri vísbendingar um hvort nýting hafnarinnar verði jafn góð til frambúðar. Í framhaldi verður velt upp möguleikum á að auka enn frekar nýtingu Landeyjahafnar.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Framkvæmdafrétta. Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.