Fréttir
  • Leið-B

Óskað eftir endurupptöku vegna Teigsskógs

er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun

21.1.2015

Skipulagsstofnun hefur nú til meðferðar ósk Vegagerðarinnar um að Skipulagsstofnun noti heimildir í lögum og reglum til að taka aftur upp úrskurð sinn um umhverfismat vegna vegalagningar á sunnanverðum Vestfjörðum, nánar tiltekið leið B sem er um Teigsskóg í Þorskafirði.


Hér á vef Vegagerðarinnar má finna umhverfismatið sem fram fór árið 2005 og beiðnina um endurupptöku ásamt gögnum sem þeirri beiðni fylgja og hún byggist á.

Í beiðninni kemur m.a. fram að Vegagerðin áætlar að byggja nýjan Vestfjarðaveg milli Bjarkalundar og Melaness í Reykhólahreppi. Framkvæmd þessi var lögð fram til mats á umhverfisáhrifum á árinu 2005. Með erindi þessu er þess farið á leit við Skipulagsstofnun að neytt verði heimildar í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og/eða óskráðrar almennrar heimildar stjórnvalda til endurupptöku mála til að taka aftur upp þann hluta úrskurðar stofnunarinnar frá 28. febrúar 2006 er lýtur að veglínu B í 2. áfanga verksins. 

Frestur til að gera athugasemdir til Skipulagsstofnunar er til og með 23. febrúar n.k. Athugasemdir ber að senda til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 105 Reykjavík eða í netfangið  skipulagsstofnun@skipulagsstofnun.is