Fréttir
  • Jökulsá á Fjöllum
  • Viðbraðgshópur Vegagerðarinnar
  • Viðbraðgshópur Vegagerðarinnar
  • Jökulsá á Fjöllum
  • Jökulsá á Fjöllum
  • Jökulsá á Fjöllum
  • Jökulsá á Fjöllum

Vegir við brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum verða rofnir komi til flóðs

Tæki til staðar í Öxarfirði, tæki á leiðinni að brúnni við Grímsstaði

23.8.2014

Vegagerðin er viðbúin því að rjúfa vegi við brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum komi til flóðs vegna gossins sem nú er hafið. Vegir verða rofnir til að létta álaginu af brúnum. Tæki eru þegar við brúna á Norðausturvegi (85) í Öxarfirði og tæki á leiðinni að brúnni við Grímsstaði á Hrinveginum (1).


Vegagerðarmenn höfðu tekið út hvar rétt væri að rjúfa vegina og í einu tilviki varnargarð, til að flóð í Jökulsánni færi sem mest framhjá brúnum við Grímsstaði og í Öxarfirði. Á fundi viðbragshóps Vegagerðarinnar í dag var ákveðið að hefja þegar vinnu við að verja brúarstöpla og akkeri beggja þessara hengibrúa þar sem hætta væri á að mjög stórt flóð myndi grafa undan þeim. Þær aðgerðir höfðu þá þegar verið hannaðar og rissaðar upp og undirbúningur að þeim hafinn. Tilgangurinn er að samhliða rofi á vegi myndu þessar auknu varnir gera það mögulegt að brýrnar stæðust stærra og langvinnara flóð en ella. Rof vegarins skiptir þó mestu í þessu sambandi.

Undir lok fundarins í dag komu boð um að gos væri hafið undir Dyngjujökli og þá ákveðið að flytja strax tæki að Jökulsá að Fjöllum við Grímsstaði til að rjúfa veginn, beggja vegna brúar en tæki eru þegar komin að brúnni í Öxarfirði þar sem þarf að rjúfa veg og varnargarð. 

Á myndunum má meðal annars sjá þá staði þar sem vegir verða rofnir. Einnig myndir af viðbraðgshópi Vegagerðarinnar en starfsmenn á Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Fellabæ, Reyðarfirði og Reykjavík tóku þátt í fundinum.