Fréttir
  • 112 dagurinn
  • 112 dagurinn
  • 112 dagurinn
  • 112 dagurinn

Vegum lokað með slá - 112 dagurinn

nýjung á Íslandi – slá sett upp fyrir Hellisheiði

11.2.2014

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri tók í dag formlega í notkun lokunarslá fyrir Hellisheiði. Hingað til hefur vegum verið lokað með einfaldri tilkynningu, á færðakorti Vegagerðarinnar eða með bifreiðum. Sláin fer yfir akreinina og lokar henni þannig að ekki er hægt að komast leiðar sinnar en bílar sem eru enn á heiðinni komast niður og þá um hina akreinina sem verður opin.

Hörður Már Harðarson formaður stjórnar Landsbjargar aðstoðaði Hrein við að taka slána í notkun. Hreinn sagði við þetta tækifæri að með auknum fjölda ferðamanna, erlendra og innlendra, væri nauðsynlegt að taka upp breytt vinnubrögð, öryggisins vegna. Reynslan hefði líka sýnt að björgunarsveitir þyrftu í auknum mæli að leggja á heiðarnar til að bjarga fólki í vondu veðri og væri ætlunin með slánum og lokuninni á vegum að fækka þeim tilvikum og auka þannig öryggi vegfarenda. Hreinn sagðist vonast til þess að vegfarendur tækju þessu vel.

Þá er búið að uppfæra tölvubúnað í ljósaskiltum Vegagerðarinnar þannig að nú er mögulegt að birta texta hvortveggja á íslensku og ensku (svo dæmi sé tekið) og getur skipst á textinn “Lokað” og “Closed” komi til þess að loka þurfi vegi. Einnig hafa verið sett blikkljós á skiltin sem vekja athygli ef til lokunar hefur komið. 

Þetta er gert í dag í tilefni 112-dagsins. Sjá fréttatilkynningu um átakið.

Þegar hefur lokunarslá verið sett upp á Dettifossvegi, en í fyrsta áfanga uppsetningar lokunarsláa verða settar upp -- auk Hellisheiðarinnar -- slár í Þrengslum, á Mosfellsheiði, Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Fróðárheiði, Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði, Hrafnseyrarheiði, Dynjandisheiði, Þverárfjallsvegi, Vatnsskarði, Siglufjarðarvegi, Lágheiði, Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatnsöræfum, Fjarðarheiði, Breiðdalsheiði, Fagradal, Öxi og Skeiðarársandi. Fleiri munu síðan bætast við í kjölfarið.

Lokun vegar með slá fer eftir fyrirfram ákveðnu verklagi sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Lokun miðast til dæmis við ófærð þar sem snjómoksturstæki hefur ekki undan veðrinu, skyggni er óviðunandi eða veðurhæð þannig að um hættuástand er að ræða, eða vegna slyss. Vegagerðin og björgunarsveitir vinna saman að lokun.

Það er von Vegagerðarinnar og björgunaraðila að vegfarendur taki þessari nýbreytni vel og geri sér grein fyrir að þetta er gert til að auka og tryggja öryggi vegfarenda. Þetta flýtir einnig fyrir því að vegir opni á ný því nú á Vegagerðin stundum í erfiðleikum með að opna vegi vegna bíla sem sitja fastir, mannlausir á heiðum.