Fréttir
  • Umferð að vetri til
  • Umferðin og spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum

Mikil aukning í umferð á Hringvegi í nóvember

í nóvember reyndist umferðin ríflega 7 prósentum meiri en í fyrra

2.12.2013

Umferðin miðuð við 16 umferðarteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum jókst um ríflega sjö prósent í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Meiri aukning hefur ekki mælst í nóvember síðan árið 2007. Reiknað er með að í heild aukist umferðin um nærri fjögur prósent í ár.

Milli mánaða 2012 og 2013
Gríðarleg aukning varð í umferð milli nóvembermánaða áranna 2012 og 2013 eða aukning sem nemur 7,1 prósenti.  Þessi aukning kemur ekki á óvart þar sem reiknilíkan Vegagerðarinnar gerði ráð fyrir að jafnvel enn meiri aukning myndi eiga sér stað þar sem nóvemberumferð árið 2012 var nokkuð undir meðallagi. En nokkrir óveðursdagar í nóvember nú í ár hafa líklega valdið því að hluta til að sú aukning gekk ekki eftir.  Þetta er næst mesta aukning milli nóvember mánaða sem mælst hefur, frá því að þessi samantekt byrjaði. En milli áranna 2007 og 2006 mældist 15,3 prósenta aukning.

Umferðin jókst á öllum landssvæðum og mest varð aukingin á Norðurlandi eða um 28,2 prósent en minnst í grennd við höfuðborgarsvæðið eða 3,8 prósent.

SamabNovember2013

Milli ára 2012 og 2013
Það sem af er ári hefur umferðin nú aukist um 3,8 prósent, sem er mesta aukning miðað við árstíma síðan á milli áranna 2006 og 2007, rétt eins og milli mánuða.  

Þrátt fyrir þessa aukningu er nokkuð í land að umferðin nái fyrri hæðum.  Ef frá eru talin ,,hrunárin" þá þarf að fara allt aftur til ársins 2006 til að finna minni eða svipaða umferð. 

 

Horfur út árið 2013
Reiknilíkan Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir að umferð í desembermánuði muni aukast talsvert miðað við sama mánuð á síðasta ári. Verði veðurfar í desember í meðallagi má búast við tæplega 4 prósenta aukningu.  Gangi þeir reikningar eftir mun umferðin á Hringveginum (í 16 mælipunktum) aukast um 3,8 prósent og aksturinn um 4,4 prósent (ath., akstur er ekki sama mælieining og umferð) miðað við síðasta ár.

Ath., þessum niðurstöðum ber einungis að taka sem vísbendingu um hvað sé að gerast á landinu öllu.