Fréttir
  • Frá framkvæmdum við Álftanesveg

Nokkrar staðreyndir um Álftanesveg

of mikið um rangfærslur í umræðunni

26.9.2013

Mikið er um beinar rangfærslur í umræðu um lagningu nýs Álftanesvegar um Garðahraun, því er rétt að nefna nokkrar staðreyndir.

Tvisvar hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum vegna lagningar nýs Álftanesvegar, það fyrra árið 2000 og það síðara árið 2002. Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að umhverfismatið sé gilt vegna núverandi framkvæmdar.

Framkvæmdaleyfi er einnig í gildi og hefur úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísað frá kæru vegna þess.

Framkvæmdin fer fram í Garðahrauni en ekki í Gálgahrauni sem liggur allt norðan framkvæmdasvæðisins. Það er því ekkert hróflað við Gálgahrauni og alls ekki Gálgakletti.

Fyrir seinna matið á umhverfisáhrifum vissu fáir að í hrauninu væri að finna mótíf fyrir listaverk Jóhannesar S. Kjarvals en það voru starfsmenn Vegagerðarinnar sem fyrir tilviljun áttuðu sig á tilvist þeirra. Þess vegna var um þau fjallað í seinna umhverfismatinu en aldrei hefur staðið til að vegurinn lægi þar sem mótífin er að finna.

Þessi veglína hefur verið á skipulagi hjá Garðabæ síðan árið 1995 og var það áréttað með samþykkt nýs aðalskipulags 2004-2016.

Framkvæmdir við Prýðishverfi hófust árið 2007 en bygging hverfisins miðast við að núverandi Álftanesvegur verði færður en gamli vegurinn nýtist sem safngata íbúðabyggðarinnar enda tengjast inn á hann tíu innkeyrslur á 800 m kafla.

Sýslumaður hefur synjað kröfu um lögbann á framkvæmdina á grunni aðildarskorts. Það var kært til héraðsdóms en vegna krafna lögmanna Hraunavina um að fá ráðgefandi álit EFTA dómstólsins má búast við að það geti tekið mánuði og jafnvel ár að leiða það til lykta. Það er svo ekki þar með sagt að fallist yrði á lögbann þótt aðild yrði viðurkennd. Lögbann er flýtimeðferð máls svo að það kemur á óvart að sóst sé eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins, sem hlýtur að tefja málið verulega.

Það er meginregla íslensk réttarfars að höfðun dómsmáls frestar ekki framkvæmdum. Mótmælendur í Garðahrauni eru því ekki í neinum rétti.

Lög kveða á um að skipulagsvaldið í landinu skuli vera hjá sveitarfélögunum. Dómsstólar, hvorki innlendir né erlendir, munu því aldrei ákveða hvar leggja skal nýjan Álftanesveg. Það gerðu kjörin bæjaryfirvöld í Garðabæ með samþykkt aðalskipulags bæjarins 1995 - 2015 og áréttuðu þau þá afstöðu sína með samþykkt nýs aðalskipulags 2004 -2016.

Vegarframkvæmdin fór síðan í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt þágildandi lögum og úrskurðaði Skipulagsstofnun í þá veru að framkvæmdin ylli ekki umtalsveðum umhverfisáhrifum og væri heimil. Samkvæmt þágildandi skipulagslögum veitti Garðabær framkvæmdaleyfi fyrir vegarlagningunni og bar að gæta þess við veitingu leyfisins að framkvæmdin væri í samræmi við gildandi skipulag og niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Annars er ekki krafist í lögunum. Útgáfa framkvæmdaleyfis var á sínum tíma kærð til úrskurðarnefndar sem tók efnislega afstöðu í málinu og staðfesti lögmæti framkvæmdaleyfis.

Úrlausnarefni dómsstóla nú er hvort umhverfismat vegarins annars vegar og framkvæmdaleyfið hins vegar séu í gildi. Tengist það því hvenær umhverfismatinu lauk og hvenær framkvæmdaleyfið var gefið út og hvenær framkvæmdir hófust. Dómsstólar eru því alls ekki að fjalla um legu vegarins sem slíka. Ef niðurstaða dómsstóla yrði sú að einungis framkvæmdaleyfið sé útrunnið liggur beinast við að Garðabær gefi út nýtt framkvæmdaleyfi. Ef umhverfismatið er útrunnið liggur beinast við að fara í nýtt mat sem ekki ætti að taka langan tíma því að ekkert hefur breyst í umhverfinu og allt málið er löngu upplýst. Að loknu matinu gæfi Garðabær síðan út nýtt framkvæmdaleyfi.

Það sem er nýtt í málinu er að frá fyrra umhverfismatinu eru komin ný lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Samkvæmt hinum nýju lögum úrskurðar  Skipulagsstofnun ekki í málum sem þessum en gefur í stað þess álit sitt á framkvæmdinni. Þótt Skipulagsstofnun mæli gegn framkvæmd þá getur sveitarfélag heimilað framkvæmdina en verður að rökstyðja þá ákvörðun sína.

Af framangreindu má ljóst vera að dómsstólar munu einungis skera úr um réttmæti málsmeðferðarinnar en ekki um legu vegarins. Með samþykkt aðalskipulags hefur bæjarstjórn Garðabæjar skuldbundið sig til að leggja nýjan Álftanesveg á þeim stað sem nú er um fjallað. Yfirstandandi mótmæli munu því einungis leiða til frestunar á framkvæmdum og mikils tjóns fyrir alla aðila en fá engu breytt um lokaniðurstöðu málsins. 

Fréttin var uppfærð 27. september