Fréttir
  • Notkun til gróðureyðingar í vegköntum
  • Innflutningur efna

Mjög dregið út notkun gróðureyðis og stefnt að því að hætta notkuninni

mjög mikið dregið út notkun á varasömum efnum, svo sem hvítspíra og málningu með leysiefnum, síðustu þrjú ár

6.9.2013

Notkun Vegagerðarinnar á varasömum efnum við gróðureyðingu og í allri vegagerð hefur minnkað mikið á síðustu árum og stefnt er að því að hætta notkuninni alfarið. Gróðureyðing í vegköntum er eigi að síður mikilvæg til að viðhalda umferðaröryggi og minnka snjósöfnun.

Aðgerðir Vegagerðarinnar við gróðureyðingu í vegköntum og leiðir til framtíðar

Meðal markmiða stjórnvalda til ársins 2013 er að markvisst verði unnið að því að skipta út eiturefnum og hættulegum efnum (Umhverfisráðuneytið, 2010. Velferð til framtíðar). Vegagerðin hefur unnið að þessu markmiði undanfarin ár og skipt þessum efnum út fyrir efni eða aðferðir sem eru hættuminni fyrir heilsu og umhverfi og er það stefna Vegagerðarinnar, bæði umhverfisstefna og innkaupastefna, að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða.

Vegagerðin hefur lagt áherslu á að draga fyrst úr þeim varasömu efnum sem hafa verið notuð í miklu magni. Má þar m.a. nefna að fram til ársins 2003 voru notaðir að meðaltali 75 þúsund lítrar af vegmálningu með leysiefnum við vegmerkingar árlega, en skipt var yfir í vatnsmálningu árið 2004, og fram til ársins 2010 voru notaðir að meðaltali 340 þúsund lítrar af hvítspíra við útlögn klæðinga á vegum, en eftir áralangar tilraunir við að draga úr notkun spírans hætti Vegagerðin notkun hans árið 2010 og notar nú lífolíu í hans stað. Nánari upplýsingar um þessar aðgerðir eru í árlegum umhverfisskýrslum stofnunarinnar.

Snjósöfnun er víða vandamál á þjóðvegum, sérstaklega þar sem hár gróður vex í vegköntum, vegna þess að gróður eykur hrjúfleika yfirborðs og dregur úr vindi. Snjósöfnun og skaflamyndun á vegi skapar hættulegar aðstæður fyrir vegfarendur. Auk þess getur gróðurinn dregið úr sjónlengdum og skyggt á vegstikur og skilti. Vegagerðin þarf þess vegna að halda háum gróðri í vegköntum í skefjum. Frá árinu 2009 hefur Vegagerðin notað að meðaltali 100 lítra á ári af gróðureyðunum Roundup og Clinic sem innihalda virka efnið Glyphosate.

Sjá súlurit með þessari frétt.

Aðferðir sem Vegagerðin hefur beitt við að draga úr snjósöfnun vegna hás gróðurs í vegköntum eru:

1.       Sláttur síðsumars.

2.       Áhersla lögð á sáningu lágvaxinna tegunda í vegköntum og tilraunir gerðar með staðargróður.

3.       Notkun gróðureyðis þar sem gróðurinn verður svo hár og þéttur að sláttur dugir ekki til. Einnig notaður á umferðareyjar í þéttbýli.

Vegagerðin fékk upplýsingar frá Umhverfisstofnun um innflutning á gróðureyðunum Roundup og Clinic, sem innihalda virka efnið Glyphosate, á árunum 2009-2012. Upplýsingarnar eru byggðar á gögnum frá Vinnueftirlitinu. Notkun Vegagerðarinnar var 13% af heildarinnflutningi á árinu 2009, 2% árin 2010 og 2011 og 5% á síðastliðnu ári.

Sjá súlurit

Starfsmenn hafa verið hvattir til að nota gróðureyði sparlega, m.a. í umhverfis- og öryggishandbók starfsmanna, innkaupa- og umhverfisstefnum auk þess sem námskeið hafa verið haldin fyrir þá um meðferð varasamra efna. Þessar aðgerðir hafa haft þau áhrif að dregið hefur úr notkuninni undanfarin þrjú ár (sjá mynd 1). Vegagerðin hefur hug á að hætta notkuninni alveg en umhverfisvænni aðferðir sem hafa verið til skoðunar eru mun dýrari.

Vegagerðin er með í athugun að fá hingað til lands tækjabúnað sem eyðir gróðri í vegköntum án eiturefna. Búnaðurinn kemur frá NCC roads í Danmörku og kallast SPUMA. Búnaðurinn er nokkuð dýr, 600 þúsund Dkr eða um 13 milljónir Ikr, fyrir utan flutningskostnað og ökutæki sem þyrfti undir búnaðinn. Gæðadeild Vegagerðarinnar sótti um styrk til rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar vorið 2013 til að fá búnað til reynslu hingað til lands til að gera rannsókn á virkni aðferðarinnar við íslenskar aðstæður. Styrkurinn fékkst ekki í það sinn en áfram verður unnið að því að finna umhverfisvænar lausnir líkt og þá sem nefnd er hér að ofan og hún þá meðtalin.

Hlýnandi veðurfar undanfarin ár hefur valdið aukinni sprettu gróðurs og sjálfsáningu. Nú orðið sáir birki sér m.a. í vegkanta á Skeiðarársandi og þar sem frekari hlýnun er spáð a.m.k. næstu 100 árin verður hár gróður væntanlega aukið vandamál við vegi næstu áratugi. Ísland er gróðursnautt land, sé miðað við flest önnur lönd í heiminum og Íslendingar eru því viðkvæmir fyrir eyðingu gróðurs, sérstaklega trjágróðurs. Vegfarendur verða þó að sætta sig við gróðursnauða vegkanta eigi öryggi þeirra að vera í fyrirrúmi á þjóðvegum en Vegagerðin þarf að endurskoða verklag í því ljósi og verja til þess auknu fjármagni. Það fjármagn mun skila sér í bættu umhverfi vegna minni mengunar og auknu öryggi starfsmanna.