Fréttir
  • Fiskidagurinn mikli 2013

Um 26 þúsund manns á Fiskideginum mikla

sami fjöldi og í fyrra

12.8.2013

Vegagerðin reiknar með að um 26 þúsund manns hafi sótt Dalvík heim á Fiskidaginn mikla sem er sami fjöldi og í fyrra. Flestir komu árin 2009 og 2010.

Þrátt fyrir verri veðurspá nú í ár, áætlar Vegagerðin að sami fjöldi einstaklinga hafi sótt Dalvíkinga heim á Fiskidaginn mikla um nýliðna helgi borið saman við sömu helgi árið 2012.

Alls fóru tæplega 15 þúsund bifreiðar um teljara á Hámundastaðahálsi (sunnan við Dalvík) og rúmlega 5 þúsund bifreiðar um veðurstöð í Múla (norðan við Dalvík) í báðar áttir þessa daga.

Sé þessum bílafjölda umbreytt í fjölda persóna í aðra áttina þá fæst sami fjöldi einstaklinga og í fyrra, í þúsundum talið, eða um 26 þúsund manns.

Frá því að talningar Vegagerðarinnar hófust á Hámundastaðahálsi er áætlað að flestar heimsóknir hafi átt sér stað árin 2009 og 2010, eða  um og yfir 30 þúsund manns, hvort ár.
Hingað til hafa þessar tölur verið í takt við tölur Dalvíkinga sjálfra.