Fréttir

Ræða vegamálastjóra við undirskrift Norðfjarðarganga

14.6.2013

 

Alþingismenn, sveitarstjórnarfólk, heimamenn og aðrir gestir.

Mig langar fyrst til að bera ykkur kveðjur frá innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem stefndi á að vera með okkur í dag en komst því miður ekki vegna anna á Alþingi.

Einnig hefur Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra beðið mig að flytja fundinum bestu kveðjur.

Það þarf varla að segja viðstöddum að núverandi Norðfjarðarvegur milli Eskifjarðar og Norðfjarðar uppfyllir á köflum ekki nútímakröfur um umferðaröryggi og akstursþægindi. Hann er brattur, með kröppum beygjum og takmarkaðri sjónlengd. Göngin um Oddskarð voru grafin á árunum 1972-1977. Þau eru 640 m löng, einbreið með 2 útskotum til mætinga og með blindhæð. Göngin liggja í 626 m hæð y.s. og þar er því erfið vetrarfærð.

Athuganir á möguleikum á nýjum jarðgöngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar hafa staðið yfir í langan tíma. Í fyrstu skýrslu sem unnin var til að undirbúa langtímaáætlun um jarðgöng á vegakerfinu og kom út árið 1987 voru brýnustu verkefnin talin vera Ólafsfjarðarmúli, Botnsheiði og Breiðadalsheiði, Fjarðarheiði og Oddsskarð. Fleiri skýrslur hafa síðan verið unnar og birtar um jarðgöng á Austurlandi. Jarðgöng eru fyrir mörgum árum komin um Ólafsfjarðamúla og undir Botnsheiði og Breiðadalsheiði á Vestfjörðum, og nú erum við að fara að skrifa undir samninga um þriðja verkefnið af þessum lista, það er Norðfjarðargöng, sem munu leysa núverandi veg um Oddsskarð af hólmi. En auk þess hafa mörg fleiri verkefni á þessu sviði orðið að veruleika á þessum tíma og nefni ég þar Hvalfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng, Héðinsfjarðargöng og Bolungavíkurgöng. Þannig að margt hefur áunnist en margt er líka eftir.

Eftir viðamikla jarðfræðikortlagningu á svæðinu var bergið á gangaleiðinni milli Eskifjarðar og Norðfjarðar rannsakað með borunum árin 2007 og 2008 og endanleg lega ganganna síðan ákveðin. Jafnframt var unnið af krafti að hönnun mannvirkjanna. Eins og svo víða annars staðar var frekari undirbúningi síðan frestað í kjölfar efnahagshrunsins meðan beðið var ákvörðunar um fjárveitingar til framkvæmda. Alþingi ákvað svo með samþykkt samgönguáætlunar vorið 2012 að framkvæmdir skyldu hefjast haustið 2013 og fjárveitingar áranna 2013 – 2017 ákveðnar í samræmi við það. Hönnunarvinnu var þá lokið, forval fór fram síðasta haust og útboðsgögn síðan send þremur verktakasamsteypum snemma á þessu ári. Lægsta tilboð kom frá Metrostav a.s. frá Tékklandi og Suðurverki hf í Reykjavík.

Heildarlengd ganga með vegskálum verður um 7,9 km. Í tengslum við jarðgangaframkvæmdirnar þarf að byggja nýjar brýr á Norðfjarðará og Eskifjarðará, en bygging þeirra tilheyrir ekki jarðgangaútboðinu. Verktakinn áætlar að hefja gangagröft frá Eskifirði í nóvember á þessu ári og grafa þaðan um 4,9 km, og á móti frá Fannardal í Norðfirði er ætlunin að byrja í janúar 2014 og grafa þaðan samtals 2,6 km.  Miðað er við að sjálfum gangagreftrinum ljúki á árinu 2015 og heildarverkinu síðan 1. september 2017. Heildarkostnaður við verkefnið frá upphafi til enda er áætlaður um 12 milljarðar króna.

Ágæta samkoma.

Nú verður undirritaður verksamningur um framkvæmdir við Norðfjarðargöng. Auk mín, sem undirrita fyrir hönd Vegagerðarinnar,  munu undirrita samninginn þeir Václav Soukup frá Metrostav a.s. og Dofri Eysteinsson frá Suðurverki hf. 

Júní 2013 / HrH