Fréttir

Vegurinn við Ystafell lokaður allri umferð fram yfir helgi

vegagerðarmenn þurftu að yfirgefa svæðið

4.6.2013

Veginum við Ystafell um Köldukinn, þjóðvegi 85, hefur verið lokað fyrir allri umferð, akandi og gangandi fram yfir helgi. Vegagerðarmenn urðu í dag varir við minni skriðu á svæðinu, sem hvarf reyndar inn í hlíðina, og létu þeir umsvifalaust af störfum. Ákvörðun var síðan tekin um að loka alveg fyrir allri umferð og endurmetur ofanflóðavakt Veðurstofunnar stöðuna eftir helgi.

Ekki verður hægt að vinna að viðgerð á veginum á meðan lokunin varir. Vegurinn skolaðist burt á um 100 metra kafla, líklega hafa einir 2000 rúmmetrar horfið. Lokunin er á um 2 km kafla, aðrar leiðir eru færar.

Gunnar Bóasson yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík var ásamt gröfumanni að vinna við að ryðja eðjunni af veginum eftir hádegið í dag þegar hann heyrði skruðninga í hlíðinni og sá smá spýju koma niður en hverfa síðan inn í miðja hlíðina. Hann kallaði því í gröfumanninn og þeir hættu vinnunni við þetta.

Gunnar segir að þegar þeir komu að staðnum þar sem vegurinn sópaðist burtu hafi þeir gert sér grein fyrir að gífurlegir kraftar hafi verið að verki enda var skemmdin mun stærri en þeir hugðu í fyrstu.

Vegurinn er kirflega merktur lokaður á þessum tveggja km kafla en enginn er innilokaður.  Möguleiki að fara aðrar leiðir á milli Húsavíkur og Akureyrar. Reikna má með að mest af þeim snjó sem er í fjöllum þarna bráðni á næstu dögum en þá á líklega eftir að þorna en staðan verður metin á ný eftir helgi.

Á meðan er ekki hægt að vinna við viðgerð á veginum sjálfum en unnið er að undirbúningi. Skemmdin er það mikil, 100 metra löng, auk þess sem setja þarf niður tvo ræsi, að reikna má með að viðgerð taki allt að þrjá daga þegar menn komast á staðinn til að vinna.