Fréttir

Drekinn ræðir betri vegi við Vegagerðina

Drekinn er vélhjólaklúbbur Austurlands og hefur áhyggjur af ástandi vega

3.6.2013

Drekinn, vélhjólaklúbbur Austurlands ræddi nýlega við Vegagerðina og Fljótsdalshérað um nauðsyn þess að sinna vegakerfinu með vélhjólafólk í huga. Farið var yfir þær hættur sem fyrir hendi eru og þær sem tiltölulega auðvelt ætti að vera að laga.

Drekamenn vilja tryggja góða umgegni við vegi landsins, merkja hættulega staði, þeir hafa sérstaklega áhyggjur af lausu efni á vegunum því það mætti bera það saman við að kúlulegur væru lagðar á gólf þar sem fólk þyrfti að ganga um. 

Helstu hættur sem auðvelt væri að laga, að mati Drekamanna:

Laust yfirborð vega, vegna lagningar eða lagfæringar slitlags, tjörublæðinga eða sandburðar: Merkja þarf þessi svæði rétt, við upphaf og endi hættu, taka merkingar niður þegar hætta er liðin hjá.

Hættulegir hálir staðir: Grindahlið, niðurföll, lok og hlemmar, haga þarf uppsetningu þannig að slíkt sé ekki sett upp í beygjum eða á gatnamótum. Tré eða járnklæddar brýr, stefna á að allar brýr séu lagðar slitlagi, merkja greinilega hættulega staði.

Möl, olía, sandur, mold, dýraskítur, gras, afföll fiskflutningabíla og annað sem berst á vegina: Hreinsa þarf tafarlaust upp, gefa viðkomandi aðvörun, og stöðva viðkomandi ef annað virkar ekki.

Vegagerðarmenn tóku vel í þetta enda umferðaröryggi gríðarlega mikilvægt, líka öryggi vélhjólamanna.