Fréttir
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu eftir mánuðum
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu með spá út árið 2013

Minni umferð á höfuðborgarsvæðinu í mars

En aukning í umferðinni fyrstu þrjá mánuði ársins

4.4.2013

Akstur á höfuðborgarsvæðinu, mældur í þremur mælisniðum Vegagerðarinnar, reyndist 1,8 prósenti minni í mars en í sama mánuði í fyrra. Leiða má líkur að því að umferðin hafi að einhverju marki færst út á land enda jókst umferðin á Hringveginum mikið í mars.

Frá áramótum hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu hinsvegar aukist nokkuð eða um 2,5 prósent og er útlit á þessari stundu fyrir að umferðin í ár aukist um 2-3 prósent.

Milli mánaða

Aðeins dró úr akstri innan höfuðborgarsvæðisins í nýliðnum mars miðað við sama mánuð í fyrra eða um 1,8%. Að fenginni reynslu þarf þetta ekki að koma á óvart þ.e.a.s. að mikil umferðaraukning á Hringvegi, eins og varð í mars (sjá eldri frétt þar um) gefur oft vísbendingar um að höfuðborgarbúar hafi farið út á þjóðvegina því eru færri á ferðinni innan höfuðborgarinnar sjálfrar á sama tíma.

Enda rennir það stoðum undir þessa tilgátu þegar rýnt er í sniðin þrjú, að þá dregur úr umferð á Hafnarfjarðarvegi og Reykjanesbraut meðan að aukning mælist á ,,Vesturlandsvegi".

Frá áramótum

Frá áramótum hefur akstur aukist um 2,5%, sem er talsvert meiri aukning en var í kortunum á sama tíma fyrir ári, en þá hafði umferð aukist um 1,7% milli 2011 og 2012.

Horfur út árið

Mun öruggara hefur reynst að segja til um horfur á akstri innan höfuðborgarsvæðisins, í upphafi árs, en út á Hringveginum þar sem breytilegt veður og færð hefur mun meiri áhrif en innan höfuðborgarsvæðisins.

 

Það er því hægt að segja til þróun umferðar með minni óvissu en á Hringveginum, á þessum tímapunkti. Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir gefa aksturstölur innan höfuðborgarsvæðisins vísbendingar um að umferðin muni aukast um 2-3% á árinu.