Fréttir
  • Vetrarblæðingar á Hringveginum

Dregur verulega úr blæðingum

Lítur mun betur út í dag

23.1.2013

Töluvert hefur dregið úr blæðingum á þjóðvegunum vestanlands og norðan í dag, sérstaklega þar sem verst var í Húnavatnssýslum. Mikilvægt er þó að vegfarendur fari varlega, sérstaklega þegar bílar mætast.

Unnið hefur verið að hreinsun þar sem tjörukögglar hafa borist víða. Unnið verður áfram við þá hreinsun. Vegagerðin vinnur nú að því að kortleggja nákvæmlega hvar þessar vetrarblæðingar hafa orðið og hvernig unnið hefur verið að útlögn klæðingar á þeim stöðum.

Ljóst er að blæðingarnar verða til vegna samspils margra þátta. Nefna má að lífolía var notuð við klæðingu á Lyngdalsheiðarvegi árið 2009 og hefur reynst vel. Líklegt er að á þeim köflum sem um ræðir núna hafi verið notuð annaðhvort lífolía, etýlesterar úr fiskolíu/lýsi eða repjuolía.

Blæðingar, hvort sem er að sumri til eða vetri, eiga sér einungis stað í klæðingu, sem notuð er á flestum þjóðvegum landsins en ekki eru blæðingar í malbiki. Malbikið er notað innanbæjar og á umferðarmestu vegunum og því er öll Reykjanesbrautin malbikuð sem og Vesturlandsvegur að Hvalfjarðargöngum, á Akranes og einnig stórir kaflar á leiðinni til Borgarness. Einnig er malbik á Suðurlandsvegi austur á Selfoss og á kafla fyrir austan Selfoss.