Fréttir
  • Umferð gangandi

"Réttur og umferðaröryggi gangandi vegfarenda á gönguþverunum"

Ein af rannsóknarskýrslum Vegagerðarinnar

13.12.2012

Birt hefur verið á vef Vegagerðarinanr skýrsla um "Rétt og umferðaröryggi gangandi vegfarenda". Þetta er ein fjölda skýrsla sem birtar eru árlega vegna rannsóknaverkefna sem styrkt eru af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Í niðurstöðu skýrsluhöfunda kemur m.a. fram að "[þ]ví miður virðist víða pottur brotinn þegar kemur að uppsetningu gangbrautarskilta en mjög mikilvægt er að allir vegfarendur geri sér grein fyrir aðstæðum hverju sinni og hvaða reglur séu í gildi. Erfitt getur verið fyrir gangandi og akandi að gera sér grein fyrir að um gangbraut er að ræða þegar engin gangbrautarskilti eru til staðar."

Skýrsluna sem Mannvit vann má finna hér.

Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um ýmis konar útfærslu og merkingar á gönguþverunum hérlendis og bent á óvissu sem ósamræmi þeirra veldur. Einnig eru innlend og erlend lög sem og reglur um málið skoðaðar. Í niðurstöðum kemur fram að æskilegt væri að kynna fyrir vegfarendum hvaða reglur og lög gilda við mismunandi aðstæður í umferðinni.

Hér eru nokkrar tilvitnanir úr niðurstöðukafla skýrslunnar.:

"Í skilgreiningu á gangbraut í frumvarpi til umferðarlaga skal gangbraut sérstaklega merkt með skiltum
og yfirborðsmerkingum. Ekki er öllum vegfarendum ljóst að ökutæki hafi forgang gagnvart óvörðum
vegfarendum sem ætla sér yfir gönguþverun, fjarri gatnamótum, sem ekki er merkt sérstaklega sem
gangbraut þó um vel skilgreinda upphækkun sé að ræða."


.......


"Því miður virðist víða pottur brotinn þegar kemur að uppsetningu gangbrautarskilta en mjög
mikilvægt er að allir vegfarendur geri sér grein fyrir aðstæðum hverju sinni og hvaða reglur séu í gildi.
Erfitt getur verið fyrir gangandi og akandi að gera sér grein fyrir að um gangbraut er að ræða þegar
engin gangbrautarskilti eru til staðar. Á þetta sérstaklega við þegar sú gerð gangbrauta sem lýst er
sem tveimur óbrotnum línum og er að jafnaði kölluð línubraut er sett niður án skilta. Notkun
línubrauta er mikil hér á landi, sérstaklega á framhjáhlaupum við ljósastýrð gatnamót. Hvort er um
að ræða forgang gangandi þar sem ökumaður beygir þvert fyrir gangandi umferð eða forgang
ökumanna þar sem gangandi þverar aðalbraut ökumanns án gangbrautarskilta? Einnig geta þessar
óbrotnu línur auðveldlega afmáðst við mikinn akstur og á veturna horfið undir snjó og þá eru þessar
línubrautir eingöngu skilgreindar í íslenskum lögum og því alls ekki víst að útlendingar átti sig á
þýðingu þeirra. Ljóst er að einfalt er að koma í veg fyrir slíka óvissu með uppsetningu
gangbrautarskilta samhliða merkingum í götu."


.....


"Töluvert misræmi er milli sveitarfélaga og veghaldarara í gerð og hönnun gönguþverana og all
nokkrir bágapunktar og aðstæður í umferðarkerfinu sem mælst er til að verði skoðaðir nánar með
öryggi allra í huga. Þá er ekki með öllu ljóst hver staða gangandi er við mismunandi aðstæður í
umferðinni þegar engin gangbraut er til staðar. Megin niðurstaðan er þó sú að forgangur gangandi er
einungis til staðar þegar um er að ræða gangbrautarljós, löglega merkta gangbraut eða þegar
ökumaður beygir þvert fyrir gangandi umferð á vegamótum.

Nauðsynlegt er að skipulagsyfirvöld og veghaldarar samræmi aðgerðir á gráu svæðunum og vinni í
sameiningu að gerð leiðbeininga hvað varðar öryggi og forgang gangandi í umferðinni. Munu slíkar
leiðbeiningar hjálpa til að gera aðstæður sambærilegar um land allt sem kemur í veg fyrir óvissu og
tryggir að staða allra vegfarenda sé skýr í umferðinni. Eftir að þeirri vinnu lýkur er mikilvægt að
kynna fyrir almenningi hvaða reglur gilda við mismunandi aðstæður en eins og aðstæður eru í dag í
umferðinni er forgangur gangandi á reiki."


.....


Í niðurstöðukaflanum kemur þetta einnig fram:
"... að bótaréttur gangandi er mjög ríkur hjá tryggingafélögum og skiptir þá litlu máli hvort
sá gangandi sé staddur á gangbraut eða ekki. Sjaldnast er um það að ræða að bætur séu skertar til
gangandi vegfarenda verði þeir fyrir slysi af völdum skráningaskylds ökutækis nema sannað sé að
gangandi hafi sýnt af sér ásetning eða stórkostlegt gáleysi."