Fréttir
  • Umferð getur verið mikil um næstu helgar

Umferðin um næstu helgar

Verlsunarmannahelgi og mikil umferð á Fiskideginum mikla

2.8.2012

Að vanda má búast við mikilli umferð um næstu helgi, Verslunarmannahelgina, og einnig næstu helgar, til dæmis helgina á eftir í nágrenni Dalvíkur vegna Fiskidagsins mikla. Vegfarendur eru hvattir til að sýna tillitssemi, þolinmæði og kurteisi á för sinni um þjóðvegi landsins.

Hugsanlega má búast við einhverjum töfum á mestu álagstímum og eru ökumenn beðnir um að taka tillit til þess til dæmis í einbreiðum jarðgöngum. Þar þarf að nýta útskot á réttan hátt til að greiða fyrir flæði umferðar.

Hátíðir eru mjög víða um Verslunarmannahelgina og því rétt fyrir vegfarendur að reikna með hægari umferð en venjulega og því getur verið kostur að leggja einfaldlega fyrr af stað ef þess er kostur og ætla sér aðeins lengri tíma til að komast á milli staða.

Allir, hvar sem þeir sitja í bílnum og hvernig sem bíllinn nú er, eru hvattir til að nota bílbeltin -- alltaf. Hvort sem ferðin er stutt eða löng. Bílbeltin bjarga mannslífum. Aðgát ber einnig að sýna varðandi áfengisneyslu og varast að leggja of snemma af stað. Edrú, úthvíldur, þolinmóður og tillitssamur ökumaður kemst greiðlega heim.

Ráðlagt getur verið reyna að finna aðrar leiðir en þær hefðbundnu en þá er margt sem þarf að athuga. Hægt er að fara hinn nýja Suðurstrandarveg með ströndinni sem getur verið heppilegt en ekki er rétt að reyna að losna við hugsanlegar raðir við Selfoss með því að fara veginn áfram um Villingaholtshrepp.

Það eru nefnilega framkvæmdir við tvo vegkafla á Villingarholtsvegi (305) annarsvegar frá Gaulverjabæjarvegi og u.þ.b. 5 km til austurs. Þar er verið að leggja klæðningu þessa dagana og ekki gott að fá mikla umferð þar um enda lausamöl á veginum. Einnig er verið að vinna við 3 km kafla neðan við Hamarsveg (308) og er hann grófur yfirferðar. Þá er ekki æskilegt að vera að beina umferð um Urriðafossveg (302) en hann er mjór og krókóttur, grófur yfirferðar og liggur um bæjarhlöð. Ef menn fara Suðurstrandarveginn og vilja sleppa við að fara í gegnum Selfoss er hægt að fara um Stokkseyri eftir Gaulverjabæjarvegi (33) og upp á Hringveg austan við Selfoss.

Það er viðbúið að það verður mikil umferð í kringum Selfoss næstu daga. Veðurspáin er þannig, Þjóðhátið í Eyjum og Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi fyrir utan allt annað sem um er að vera.

Góða ferð.