Fréttir
  • Hvalfjörður 1. júlí - 29. júlí
  • Hellisheiði 1. júlí - 29. júlí

Enn meiri umferð um Hellisheiði en mun minni um Hvalfjörð

Aukning austur á bóginn en fækkun vestur og norður

31.7.2012

 

Umferðin í júlí út úr höfuðborginni (1. - 29.7.) jókst um tæp fjögur prósent um Hellisheiði frá fyrra ári en dróst saman um nokkuð meira um Hvalfjarðargöng eða um 5,7 prósent. Samdrátturinn um Hvalfjarðargöng nú er nokkuð meiri en í júnímánuði.

Í júní og júli hefur umferðin austur aukist um tvö prósent en dregist saman um rúm þrjú prósent um Hvalfjarðargöng.

Hellisheiði

Umferð um Hellisheiði eykst alla vikudaga í júlí, borin saman við sama tímabil árið 2011. Hlutfallslega eykst umferð mest á sunnudögum eða rúm 8%. Þessi aukning samsvarar um 855 bílum að meðaltali. Minnst eykst umferð á mánudögum eða 0,4%, sjá meðfylgjandi stöplarit. Að meðaltali eykst umferð um Hellisheiði því um 335 bíla á sólarhring að meðaltali í júlí.

Vegna bilunar í búnaði í júní 2011 er ekki hægt að segja til með fullri vissu um mismun á milli júní mánaða en út frá áætlun er gert ráð fyrir að umferð hafi aukist um 0,1% í júní. Þegar júní og það sem af er júlí eru lagðir saman má gera ráð fyrir því að umferð um Hellisheiði hafi aukist í heild um 2,0%, miðað við árið 2011.

Áætluð meðalumferð í júlí á þessu ári er 9.215 bílar á sólarhring.

Hvalfjörður

Umferð um Hvalfjarðargöng dróst saman um tæp 6% milli júlí mánaða 2011 og 2012. Þetta er margfalt meiri samdráttur en varð í júní, þetta sumarið, en þá dróst umferðin einungis saman um 0,2% miðað við sama mánuð árið 2011. Samdráttur mælist á öllum vikudögum. Mest dregst umferð saman á laugardögum eða um 10,5% en það samsvarar því að um 750 færri bílum hafi verið ekið um Hvalfjarðargöng að meðaltali hvern laugardag í júlí. Hlutfallslega dregst umferð minnst saman á þriðjudögum og miðvikudögum eða um 1,2%, sjá meðfylgjandi stöplarit, en þá daga er einnig minnsta umferðin um göngin.

Það sem af er sumri, eða í júní og júlí, hefur umferð um Hvalfjörðinn því dregist saman um rúm 3% en það samsvarar því að um 230 færri bílum á sólarhring hafi verið ekið um göngin að meðaltali í sumar.

Áætluð meðalumferð í júlí á þessu ári er um 7.455 bílar á sólarhring.