Fréttir
  • Alvarlega slasadir 1975-2010
  • Banaslys 1970-2010

Vegáætlun og umferðaröryggi

Vegagerðin hefur safnað slysaupplýsingum í áratugi

15.2.2012

Nokkrar umræður hafa að undanförnu spunnist um öryggi vega og hvaða vegir væru hættulegir og hvernig forgangsröðun framkvæmda væri í því samhengi. Pistli þessum er ætlað að varpa nokkru ljósi á vinnu Vegagerðarinnar í tengslum við öryggismál vega.

Almennar forsendur Vegagerðarinnar við hönnun vega er leiðarljós sem flestallar þróaðar þjóðir hafa í veghönnunarreglum sínum:

 

  • Umferðaröryggi
  • Tillit til umhverfisins
  • Fjárhagsleg hagkvæmni
  • Afkastageta vega

Það er síðan verkefni veghönnuða að þræða hinn gullna meðalveg milli þessar þátta sem oft á tíðum eru innbyrðis í mótsögn hver við annan. Þróunin hefur verið í þá átt á síðustu árum að þættirnir umhverfi og öryggi hafa fengið sífellt meira vægi en áður. Tengist það bæði vaxandi velmegun þjóðarinnar og einnig þeirri staðreynd að markmiðinu að tengja byggðir landsins hefur að mestu verið náð og gefst þá tækifæri til að sinna þessum tveimur markmiðum betur en áður.

Vegagerðin hóf árið 1976 að safna kerfisbundið öllum upplýsingum um umferðarslys á þjóðvegum sem skráð höfðu verið í lögregluskýrslur*. Slysunum var raðað á vegarkafla, að jafnaði um 10 – 12 km að lengd, þau flokkuð eftir alvarleika þeirra og eðli og reiknuð slysatíðni vegarkaflanna eða fjöldi slysa á hverja milljón ekinna km á viðkomandi vegarkafla. Þessi tala, slysatíðni, er í rauninni líkurnar á því að ökumaður lendi í slysi til langs tíma á viðkomandi vegarkafla miðað við óbreyttar aðstæður á kaflanum. Frá árinu 1979 hefur  verið skrifuð slysaskýrsla þar sem greint er frá slysum á hverjum einasta vegarkafla á landinu. Undir lokin í skýrslu hvers árs voru teknir saman í lista þeir vegarkaflar sem voru með flest slysin og sömuleiðis í annan lista þeir vegarkaflar sem voru með hæstu slysatíðnina. Það hefur því lengi verið þekkt hvar hættulegustu vegi landsins er að finna, með tilliti til fjölda slysa á hvern km vega og slysatíðni, þ.e. slysa á milljón ekinna km. 

Síðustu 15 ár hefur einnig verið lögð mikil áhersla á að teikna slysakort fyrir þjóðvegi í þeim tilgangi að finna þá staði þar sem mörg slys verða á sama stað.  Slysastaðir eru síðan greindir nánar til að finna út hvað hægt sé að gera til úrbóta. Nákvæmasta greiningin fæst með því að teikna slysamynd en hún sýnir stefnu og stöðu ökutækja og annarra vegfarenda og önnur atriði eins og t.d. hemlun, hröðun, yfirborðsaðstæður, dagsljós, myrkur, klukkan hvað slysið varð o.s.frv.  Með þessu er athugað hvort óvenju mörg slysanna, á viðkomandi stað, verða af sama toga og eða við svipaðar aðstæður.Sem dæmi má nefna að ef í ljós kemur að óvenjumörg slys verða í hálku á ákeðnum stað er reynt að bregðast við því með því að auka hálkuvarnir á þeim sama stað.

Athuganir þessar hafa síðan alla tíð síðan verið hafðar til hliðsjónar við forgangsröðun vegaframkvæmda á landinu en ljóst var alltaf að nauðsynlegt var að uppfylla önnur markmið í vegamálum samhliða, eins og t.d að leggja bundið slitlag, tengja byggðir landsins, byggja vegi upp úr snjó, auka burðarþol vega o.sv. fr.v. Einn vandinn við að reikna slysatíðni er að mjög margir vegir á Íslandi eru með litla umferð. Á slíkum vegum verða umferðarslys oft aðeins á nokkurra ára fresti. Slysatíðni reiknast þá núll flest árin en rýkur síðan upp úr öllu valdi þá sjaldan að slys verða. Það getur því tekið mörg ár að fá skýra mynd af því hvort slíkir vegir skera sig úr sem slysakaflar.

Frá árinu 2005 hefur umferðaröryggisáætlun verið hluti vegáætlunar í samgönguáætlun. Hefur verið varið umtalsverðu fjármagni til umferðaröryggismálanna í áætluninni en eftir hrun hefur hún alfarið verið fjármögnuð af tekjum til vegamála þótt áætlunin sem slík tengist ýmsu öðru en beinlínis vegum. Má þar nefna löggæslu, umferðarfræðslu, baráttuna gegn áfengi og akstri og ýmislegt fleira.

Í vegáætluninni sjálfri eru mörg markmið sem tengjast umferðaröryggi, og fjármagni hefur á undanförnum árum verið veitt til að sinna þeim markmiðum. Má þar nefna útrýmingu einbreiðra brúa á umferðarmestu vegum, uppsetningu vegriða á umferðamiklum stofnvegum höfuðborgarsvæðisins og nágrennis, gerð öryggissvæða við hlið vega, aðgreiningu akstursstefna á umferðarmestu þjóðvegum o.s.frv.  Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er við forgangsröðun m.a. litið til vega á suðvesturhorninu þar sem slys eru flest en einnig til vegarkafla í dreifbýli þar sem slysatíðni er há.

Þegar horft er til baka síðustu áratugina er augljóst að verulegur árangur hefur orðið af umferðaröryggisstarfinu á Íslandi. Tíðni látinna í umferðarslysum, þ.e.a.s. fjöldi látinna á hverja 100.000 íbúa hefur lækkað um 50-60% og örugglega enn meira ef miðað væri við ekna km. Ef horft er til alvarlega slasaðra þá fæst nokkurn veginn sama mynd. Þetta er þróun sem er sambærileg við þróun hjá þeim þjóðum sem standa sig best í umferðaröryggisstarfinu. Auðvitað þýðir þetta ekki að slaka megi á því góða starfi sem unnið hefur verið á undanförnum áratugum. Öryggismál í umferðinni er eilífðarverkefni sem Vegagerðin, Umferðarstofa, sveitarfélögin, lögreglan og aðrir skyldir aðilar munu vinna að.



* Frá og með árinu 2000 hefur Vegagerðin fengið upplýsingar um slys frá Umferðarstofu.

 

Vegagerðina er að finna á

     facebook