Fréttir
  • Oddsskarðsgöng
  • Oddsskarðsgöng
  • Myndirnar á Facebook

Ekki grjót sem hrundi úr göngunum

mynd af grjóti í Oddsskarðsgöngum er af grjóti sem var losað, ekki grjóti sem hrundi

16.12.2011

Í dag 16. desember hefur gengið á Facebook mynd af grjóti í Oddsskarðsgöngum og látið að því liggja að grjótið hafi hrunið úr göngunum. Það er ekki rétt, grjótið hrundi ekki. Svæðið var merkt vinnusvæði og verktakinn sem var að hreinsa þar var á leið út með annað efni sem hafði losnað úr gangaveggnum.

Verktakinn varaði vegfarandann á myndinni við steininum, en verktakinn hafði skilið hann eftir í vegkantinum.  Steininn hafði verið tekin niður á öðrum stað úr gangavegg og hafði því alls ekki hrunið út göngunum. Sjá nánar yfirlit hér fyrir neðan. 

Sjá líka á Facebook síðu Vegagerðarinnar.

Morguninn 14. desember hrundi smátt grjót úr gangavegg í Oddsskarðgöngum inn á veg á um 5 m löngu svæði þar sem er kargi í gangavegg.  Snjómokstursverktaki Vegagerðarinnar sem kom að þessu um kl. 6 um morguninn hreinsaði grjótið af akbrautinni, en nokkuð var af lausu grjóti sem var utan í gangaveggnum var það hreinsað upp á milli kl. 8-9.  Starfsmenn Vegagerðarinnar skoðuðu aðstæður í framhaldinu um morguninn. Bergið (karginn) þarna var laust í sér og var að springa frá veggnum í stærri stykkjum.  Ákveðið var í framhaldinu að skrota (losa um allar sprungur) og hreinsa svæðið sem var gert aðfararnótt 15. desember undir verkstjórn Vegagerðarinnar.  Þegar unnið var við að flytja efnið sem losað var frá veggnum á umræddu svæði var steinn tekinn niður á öðrum stað sem hafði verið skorðaður við styrktargrind í gangavegg í útskotinu að norðanverðu.  Myndin sem um ræðir er af þessum steini, því að samkvæmt upplýsingum frá verktakanum sem var á gröfunni og vann fyrir Vegagerðina, skildi hann steininn eftir í vegkantinum á meðan hann var að fara út úr göngunum með annað efni.    Verktakinn aðvaraði vegfarandann sem er á umræddri mynd og  var þarna á ferðinni um að steinninn væri inn á akbrautinni og hann tæki hann á eftir.  Göngin voru merkt sem vinnusvæði og umferðartafir vegna vinnu í jarðgöngum auglýstar á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Það er fylgst með ástandi í gangana eftir megni og lætur Vegagerðin m.a. snjómokstursverktakann sem er þarna mikið á ferðinni og þekkir vel til, vakta hvort eitthvað laust grjót sé á eða við akbraut.

 

Minnisblað eftir úttekt á göngunum

Teikningar