Fréttir
  • Volvó L485, árgerð 1961
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur
  • 50 ára aldursmunur

50 ára aldursmunur

Volvó Vegagerðarinnar 50 ára spókar sig með nýjasta Volvónum

18.10.2011

Volvó L485 vörubíll, árgerð 1961, var í heiðurssæti þegar Brimborg kynnti á dögunum nýjasta Volvó vörubílinn sem heitir FMX 8x4RT en það er 50 ára aldursmundur á þeim. Vegminjasafn Vegagerðarinnar hefur látið gera gamla bílinn upp og hefur vel tekist til hjá Erlendi Egilssyni við endurgerðina.

Vegagerðin fékk á sínum tíma þrjá samskonar bíla og voru þeir áberandi á vegum landsins í tvo áratugi. Þessi bíll kom til landsins 25. maí 1961 og þjónaði Vegagerðinni vel og lengi eða í 20 ár, til 1981 og var ekið yfir 2 milljónir kílómetra.

Nýji bíllinn er svo sem sjá má á myndunum mjólkurbíll og farinn í vinnu hjá mjólkursamsölunni og tekur litla 20 þúsund lítra af mjólk og er töluvert mikið breyttur frá fimmtíu ára afa sínum.

Um gamla bílinn:

Hann var einn af þremur sams konar bílum sem Vegagerðin átti og voru oft kallaðir „langferðabílar“.  Þeir voru iðulega saman í ferðum, til dæmis þegar flytja þurfti brúa- og vegavinnuflokka á nýjan vinnustað, eða flytja brúarbita og annað byggingarefni.  Þessir vörubílar voru því mjög áberandi á vegum landsins í um tvo áratugi, eða eins konar andlit Vegagerðarinnar.

Þessi bíll kom til landsins 25. maí 1961, fyrstur bílanna þriggja og var hann skráður daginn eftir á skráningarnúmerið R-7276 (bílstjóri Baldur Kristensen) og hélt því númeri alla tíð síðan.  Hinir tveir voru með skráningarnúmerin R-7277 (bílstjóri Hjalti Sigfússon) og R-7278 (bílstjóri Gunnlaugur Jónsson) og þjónuðu þeir allir Vegagerðinni vel og lengi, en þessi lengst, eða allt til ársins 1981 og var ekið yfir 2 milljónir km.

„Langferðabílarnir“ voru mikil og merkileg tæki á sínum tíma og mörkuðu tímamót í sögu flutninga hjá Vegagerðinni.  Á þá voru smíðaðir langir fastir pallar með rúllum aftast vegna vinnuskúraflutninga og voru þeir án sturtubúnaðar.  Aftan við húsið var öflugur þriggja tonna krani.  Á framstuðara var smíðuð breið grind með stólum yst til þess að halda steypustyrktarjárni, sem auk þess að standa aftur af pallinum, var látið ganga fram af honum og meðfram öku­mannshúsinu og sitja í þessum stólum og var lengd járnsins allt að 12 metrar.  Vegna þessa voru sérpöntuð mjórri hús en annars voru á þessum bílum, svo járnin kæmust fram með þeim, auk þess sem hurðahúnar voru innfelldir.  Loks voru húsin með þaklúgu, svo ökumenn gætu skriðið upp úr þeim, þegar ekki var hægt að opna hurðir vegna steypustyrktarjárnanna.  Lengd vörubílanna var það mikil að Bifreiðaeftirlitið gerði kröfu um að þeir yrðu styttir og var þá sagað aftan af pöllunum.  Nú er bíllinn aftur kominn í upphaflega lengd.

Vörubíllinn R-7276 komst í eigu Runólfs Valdimarssonar, Hólmi í Landbroti, Vestur-Skafta­fellssýslu, árið 1981 þegar Vegagerðin hætti að nota hann og stóð eftir það á lóð Vélsmiðju Sigurðar Jónssonar hf. í Kópavogi, eða þar til Runólfur gaf Vegminjasafninu hann árið 1998. 

Erlendur Egilsson hefur séð um endurgerð vörubílsins, en henni er ekki lokið, því á hann vantar kranann milli vörupalls og húss og grindina á framstuðarann.

(Bíllinn er í eigu Vegminjasafnsins, höfundur texta um bílinn, Jakob Hálfdanarson, minjavörður)