Fréttir
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu

Örlítið aukin umferð á höfuðborgarsvæðinu

lítillega aukin umferð í september

11.10.2011

Akstur á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt þremur mælipunktum reyndist 0,2 prósentum meiri í nýliðnum september en í sama mánuði í fyrra. Þetta er þriðji mánuðurinn í ár sem umferðin eykst milli ára.

Eigi að síður er útlit fyrir, samkvæmt spá Vegagerðarinnar, að akstur á höfuðborgarsvæðinu dragist saman um allt að 2,6 prósent. Gæti þó orðið minna því undanfarin ár hefur aksturinn síðustu mánuði ársins verið mjög breytilegur.

 

Milli mánaða

Þetta er sum sé í þriðja sinn á þessu ári og í annað skiptið í röð sem umferðin eykst á milli mánaða því aksturinn í apríl jókst um 0,5 % og í ágúst um 0,1 %.

Aksturinn á Hafnarfjarðarvegi (sunnan Kópavogslækjar) og Nesbraut (ofan Ártúnsbrekku) eykst um 0,5 % á báðum stöðum en það dregur úr akstri á Reykjanesbraut (við Dalveg) um 0,2 %.

Það sem af er ári

Milli janúarmánaða var mismunur á akstri, milli áranna 2010 og 2011, 3,9 % minni akstur og mestur varð munurinn að loknum mars eða 4,3 % minni akstur. Síðan hefur smátt og smátt dregið úr þessum mismun því í ágúst var uppsafnaður akstur 2,8% undir 2010 og eftir september er þessi mismunur kominn niður í 2,5% undir 2010.

Horfur út árið 2011

Sé tekið mið af meðalþróun aksturs, fyrir þessa þrjá staði á bilinu 2005 - 2010, framreiknast samdráttur upp á 2,6% á höfuðborgarsvæðinu nú í ár, sjá línurit.

Ólíkt því hvernig ekið er úti á landi, þar sem mesti aksturinn á sér stað yfir sumartímann, er umferðin að meðaltali mest á haustin innan höfuðborgarsvæðisins. Umferðardeild telur því að mismunurinn verði aðeins minni en framreikningurinn gefur til kynna, því sé horft til þess hvernig 2011 kúrfan leggur sig að 2010 ferlinum, fyrir tvo síðustu mánuðina má freistast til þess að ætla að aksturinn í haust verði svipaður og 2010. Gangi sú spá eftir leiðir það til minni samdráttar í heild, eða um 1,8%, í lok árs.

Á þessum tímapunkti má ætla að talsvert miklar líkur séu til þess að samdráttur í akstri á höfuðborgarsvæðinu verði á bilinu 1,5 - 2,5%, fyrir sniðin þrjú.