Fréttir
  • Leiðir B, C og D
  • Fundurinn Bjarkarlundi
  • Fundurinn Patreksfirði
  • Fundurinn Patreksfirði
  • Fundurinn Patreksfirði

Ráðherra á sunnanverðum Vestfjörðum

heimamenn algerlega andsnúnir því að fara Hjallaháls og Ódrjúgsháls

21.9.2011

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var á tveimur fundum með heimamönnum á sunnanverðum Vestfjörðum í vikunni. Í Bjarkarlundi og á Patreksfirði. Rætt var um leiðaval á Vestfjarðavegi (60) og lausnir varðandi veginn í Gufudalssveit um Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Fulltrúar Vegagerðarinnar voru einnig á fundunum.

Ögmundur lagði áherslu að taka þyrfti tillit til þriggja þátta, kostnaðar, öryggis og hraða (mögulegs framkvæmdahraða). Hann hefði hafið samráðsferli með heimamönnum og hagsmunaaðilum um bestu leiðina eftir að Hæstiréttur dæmdi úrskurð umhverfisráðherra um svokallaða B-leið ógildan. En það er leiðin um Teigsskóg og með þverun Gufu- og Djúpafjarða.

Að loknu samráðsferli, sagði Ögmundur, hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að það væri, að teknu tilliti til kostnaðar, öryggis og hraða vænlegast að fara D-leið en í henni felst að leggja nýjan og betri veg um hálsana. Í ljósi mikillar andstöðu heimamanna við þetta hefði hann samt ekki viljað loka á aðra möguleika. Hann hefði í því sambandi nefnt þann möguleika að síðar mætti gera göng undir Hjallahálsinn. Þá bætti hann við að Vegagerðin hefði einnig nefnt fleiri kosti láglendisvega á þessari leið.

Ögmundur sagði að hann hefði einnig lagt til á samráðsfundunum að fara strax í framkvæmdir í Gufudalsveitinni en bíða í staðinn með kaflann um Eiði-Þverá. Því hefðu heimamenn verið afar andsnúnir og því yrði það ekki gert. Haldið yrði áfram með þann kafla en reikna má með að hann verði boðinn út fyrir áramót en umhverfismat er á lokastigum.

Heimamenn sem tóku til máls á fundunum lögðu nær allir mesta áherslu á að ekki yrði farið yfir hálsana, farinn yrði láglendisvegur og fundin yrði leið til að fara B-leiðina um Teigsskóg. Á fundinum á Patreksfirði hvatti fyrsti ræðumaður menn til að mótmæla hugmyndum ráðherra og hálsaleiðinni með því að ganga út. Urðu langflestir fundargesta við því og gengu út.

Ögmundur ítrekaði að vegna andstöðu heimamanna við að fara hálsana vildi hann ekki loka neinum leiðum. Hann vildi láta kanna betur jarðfræðina vegna ganga undir Hjallaháls og skoða aðra möguleika betur í stöðunni. Hann ítrekaði líka að hann teldi B-leiðina út úr myndinni þar sem það tæki ef til vill 5-7 ár að fá niðurstöðu með nýju umhverfismati og öllum kærum sem búast mætti við, auk þess sem óvíst væri um útkomuna og því gætu menn staðið í nákvæmlega sömu sporum eftir 5-7 ár.

Andstaða heimamanna við því að fara um hálsana var ótvíræð og krafa þeirra um láglendisveg hávær.