Fréttir
  • Helgarumferðin 15.-17. júlí 2011
  • Helgarumferdin 15.-17. júlí 2011. Meðaltal fyrri ára

Meiri og minni helgarumferð

helgina 8.-10. júlí var umferðin meiri en að meðaltali en minni helgina 15.-17.júlí

19.7.2011

Um helgina 8 - 10 júlí, fór samanlögð umferð um sex mælisnið Vegagerðarinnar á Hringvegi í grennd við höfuðborgarsvæðið, í fyrsta sinn yfir meðaltal helganna 2008 - 2010, fyrir sömu helgar, sjá mynd af stöplariti.

Aukning varð í öllum mælisniðum þó mest um Hellisheiði eða 9% en minnst um Hafnarmela eða 0,1%.. Samtals austur fyrir fjall jókst umferðin um 7% og norður fyrir um 1,5% sem gerir í heild um 4,5% aukningu, sem er sú mesta á þessu ári. Áður hafði mesta aukningin mælst um aðra helgina í júní eða 4%. Það sem af er sumri eru þetta jafnframt þær einu helgar þar sem umferð hefur aukist árið 2011 borið saman við sömu helgar árið 2010, í þessum mælisniðum, samanber meðfylgjandi talnaefni. 

Um síðustu helgi, eða 15 - 17 júlí, varð aftur um samdrátt að ræða í helgarumferðinni. Austur fyrir fjall dróst umferðin saman um 8,3% og norður fyrir um 5,1% sem gerir heildar samdrátt um 6,9%. Öfugt við helgina þar á undan varð samdráttur í öllum mælisniðum. Mest um Hellisheiði eða 9,8% en minnst um Hvalfjarðargöng eða 4,7%.

Umferðin um síðustu helgi út frá Höfuðborgarsvæðinu var langt undir meðaltali áranna 2008 - 2010, sem hefur að jafnaði verið sú stærsta þessi ár, samanber myndina af stöplaritinu.

Sé horft til stöplaritanna hefur tilhneiging verið til þess að smá saman dragi nú úr umferð, út frá Höfuðborgarsvæðinu, um helgar, þótt búast megi við mikilli umferð um Verslunarmannahelgina, sem er að þessu sinni síðasta helgin í júlí. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort sú verði raunin nú í ár.