Fréttir
  • Umferðin í mars

Ríflega 6% minni umferð á höfuðborgarsvæðinu í mars

umferðin dregst saman

6.4.2011

Umferð um Höfuðborgarsvæðið dregst saman um 6,3% að meðaltali milli marsmánaða 2010 og 2011, miðað við þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

Mest dregst umferð saman á Hafnarfjarðarvegi eða rúmlega 8%.

Umferð um Hafnarfjarðarveg hefur dregist langmest saman milli mánaða, það sem af er ári, en nú virðist samdráttur aukast til muna einnig á Reykjanesbraut við Dalveg eða frá 1,7% milli febrúar mánaða í 5,6% milli mars mánaða og um Vesturlandsveg ofan Ártúnsbrekku frá 1,7% milli febrúar mánaða og í 5,2% milli mars mánaða, sjá meðfylgjandi töflu (pdf).

Frá áramótum hefur umferð því dregist saman um 4,4%, fyrir þessi þrjú mælisnið.

Haldi þróunin áfram í takt við þrjá fyrstu mánuði ársins stefnir í rúmlega 3 prósenta samdrátt á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2011. Þetta er meiri samdráttur en vænta mátti samkvæmt síðustu spá Vegagerðarinnar, en þá var gert ráð fyrir 2,5% samdrætti eftir tvo fyrstu mánuði ársins. Er þetta fyrst og fremst vegna þess að mun meiri samdráttur varð um Reykjanesbraut og Vesturlandsveg, en gert hafði verið ráð fyrir.

Allur vari skal hafður á spánni þar sem hún byggir einungis á þremur fyrstu mánuðum ársins og umferðin er frekar sveiflukennd á þessum árstíma og óútreiknanleg. Vafalaust eiga spárnar eftir að sveiflast eitthvað fram og til baka, á fyrri helmingi þessa árs, t.d. eins og fram kemur á meðfylgjandi línuriti (pdf) um hvernig þróun spárinnar var árið 2010.