Fréttir
  • Umferðin með spá fyrir 2011

Mesti samdrátturinn til þessa

Enn dregur úr umferð á Hringveginum

4.3.2011

Sláandi mikill samdráttur er í umferð um Hringveg á 16 mælipunktum Vegagerðarinnar, tvo fyrstu mánuði ársins borið saman við sama tíma árið 2010. Um er að ræða mesta samdrátt á viðmiðunartímabilinu til þessa.

Samdrátturinn nemur ríflega sex prósentum samanlagt í janúar og febrúar og nemur 5,2 prósentum í febrúar. Vegagerðin birtir nú spá um þróun umferðar út árið 2011 miðað við þessar tölur og samkvæmt því stefnir í að umferðin í ár verði ívið minni en hún var árið 2006.

Nemur samdrátturinn nú milli febrúarmánaða 5,2% en 6,1% frá áramótum. Næst mestur var samdrátturinn milli áranna 2010 og 2009 eða 3,4% frá áramótum, þ.e.a.s. fyrir janúar og febrúar. Um er því ræða 9,4% samdrátt frá árinu 2009, að telja.

Mest dregur úr umferð á Hringvegi um Austurland eða 10,2% milli febrúarmánaða og 9,8% frá áramótum. Næst mest dregur úr umferð um Suðurland eða 9,0% milli febrúarmánaða en 7,6% frá áramótum.

Minnst dregur úr umferð á Hringvegi um Norðurland eða 0,1% milli febrúarmánaða en næst minnst um Vesturland eða 4,9%

Eins og sést á töflunni hér á síðunni er þetta í fyrsta sinn síðan árið 2006 að samdráttur mælist á öllum svæðum í janúar og febrúar samtals.

 

Samanburðartafla 

 

Í fyrsta sinn, síðan Vegagerðin hóf að birta þessar samanburðartölur, fylgir spá um þróun út árið fyrir 16 talningastaði á Hringvegi. Áður hefur Vegagerðin gefið út spá fyrir Höfuðborgarsvæðið en hyggst nú einnig gera það fyrir 16 talningastaði á Hringvegi. Hafa ber í huga alla fyrirvara á þessum tölum þar sem einungis tveir mánuðir eru liðnir af árinu auk þess hefur reynst erfiðara að spá fyrir um þróun úti á þjóðvegum en inni í þéttbýli, eins og t.d. á höfuðborgarsvæðinu, en í dreifbýli er meiri hætta á að færð spillist vegna veðurs.

Sé eitthvað mark takandi á tveimur fyrstu mánuðum ársins gæti samdráttur á Hringveginum numið allt að fimm prósentum í lok árs. Það er tvöfalt meiri samdráttur en gert er ráð fyrir á höfuðborgarsvæðinu, eftir tvo fyrstu mánuði ársins. Á meðfylgjandi línuritum sést hver afleiðing svo mikils samdráttar yrði en hún er sú að umferðin færi undir það sem hún var árið 2006. En enn og aftur ber að hafa alla fyrirvara á. Hlutfallslega meiri umferð í næstu mánuðum gæti hæglega kollvarpað þessari spá.

 

Talnaefni og línurit.

 

Í ljósi reynslunnar skal það tekið fram að aksturstölur fyrir árið 2011 eru órýnd gögn, sem geta tekið breytingum þegar árið er gert upp.

 

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.is eða í síma 522-1817