Fréttir
  • Borgarnes 100 ár

Líkan af Hvítárbrú

afhjúpað í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá komu Vegagerðarinnar til Borgarness

29.12.2010

Líkan af Hvítárbrú var afhjúpað í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi nú fyrir jólin í tilefni þess að í ár eru 100 ár frá því að telja má að Vegagerðin opnaði starfsaðstöðu í Borgarnesi. Það var Guðjón Bachmann sem hóf störf í Borgarnesi árið 1910, brúarsmiður og verkstjóri.

Líkanið smíðaði Erling M. Andersen í hlutföllunum 1:42. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði við þetta tækifæri að þótt vitað væri hvenær starfsemi hefði hafist í Borgarnesi væri ekki vitað hvenær formlega vegagerð forvera Vegagerðarinanr hefði hafist á Íslandi en það hefði líklega verið litlu fyrr.

 

Magnús V. Jóhannsson svæðistjóri norðvestursvæðis nefndi auk Guðjóns verkstjórann Ara Guðmundsson en afkomendur þeirra beggja voru viðstaddir athöfnina í Safnahúsinu. Til að byrja með verður líkanið til sýnis í Safnahúsinu. Magnús sagði meðal annars þetta í ávarpi sínu:

"Samkvæmt mínum bestu heimildum þá var tekin um það ákvörðun af Jóni Þorlákssyni landsverkfræðingi árið 1910 að í Borgarnesi skyldi verða miðstöð allra vegabóta í héraðinu og var Guðjóni nokkrum Bachmann falin umsjón með vegagerð á svæðinu. Það sama ár flutti hann í Borgarnes sem fastráðinn starfsmaður landsverkfræðings með aðsetur þar.

Embætti landsverkfræðings er jú forveri Vegagerðarinnar. Embættið var stofnað nokkru fyrir aldamótin 1900. Í upphafi árs 1918 var embætti landsverkfræðings skipt í tvo hluta, embætti vegamálastjóra (Geir G. Zoega) og vitamálastjóra (Thorvald Krabbe) en frá þeim þróuðust stofnanirnar Vegagerð ríkisins, síðar Vegagerðin og Vita- og hafnamálaskrifstofan. Sameining aftur.

Það má því segja að árið 1910 marki upphaf starfsemi Vegagerðarinnar í Borgarnesi og hefur hún því staðið sleitulaust þar allar götur síðan, eða í 100 ár. Við Vegagerðarmenn teljum þetta merk tímamót og því tilefni til að halda lítillega upp á þau."

Sjá frétt safnsins og frétt í Skessuhorni.

 

Jakob Hálfdanarson minjavörður Vegagerðarinnar tók myndirnar hér fyrir neðan:

Borgarnes 100 ár líkan

 

Borgarnes 100 ár líkan

 

Borgarnes 100 ár afkomendur

Afkomendur Guðjóns og Ara. Frá vinstri Ómar Arason, Sigvaldi Arason, Hjördís Karlsdóttir (barnabarn Guðjóns), Unnsteinn Arason, Hólmsteinn Arason og Guðmundur Arason.