Fréttir
  • Hófaskarð opnun

Hófaskarð opnað í snjókomu - MYNDIR

53,3 km af heilsársvegi með bundnu slitlagi opnaðir formlega

6.11.2010

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Ögmundur Jónasson, ásamt vegamálastjóra Hreini Haraldssyni, opnaði í dag 6 nóvember, formlega Hófaskarðsleið og Raufarhafnarveg.

Þessi vegaframkvæmd fólst í því að tengja saman Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn með góðum heilsársvegi með bundnu slitlagi og koma þessum byggðum í betra vegasamband við aðra landshluta. Lagðir voru samtals 53,3 km langir stofnvegir, 38,9 km yfir Hólaheiði og Hófaskarð og 14,4 km löng tenging til Raufarhafnar. Er þetta lengsti vegarkafli með bundnu slitlagi sem tekin er í notkun í einu á Íslandi.

Mikill fjöldi heimamanna var við áningarstaðinn í Hófaskarði þegar ráðherra og vegamálastjóri opnuðu vegina formlega með borðaklippingu svo sem hefð er fyrir. Ráðherra leitaði aðstoðar fyrrverandi samgönguráðherra sem voru á staðnum, þeirra Steingríms J. Sigfússonar, Halldórs Blöndal og Kristjáns L. Möller og einnig ráðuneytistjóra síns Ragnhildar Hjaltadóttur svo ekki væri um hreina „herraklippingu“ að ræða en vegamálastjóri fékk sér til aðstoðar forvera sinn í starfi Jón Rögnvaldsson.

Í máli vegamálastjóra kom fram ánægja með vel unnið verk og mikilvægi þess fyrir byggðarlögin og íbúa þeirra. Hann sagði að verkefnum af þessari stærðargráðu færi fækkandi, sérstaklega næstu ár í núverandi ástandi, en einnig vegna þess að mörgum stórum verkum væri lokið. Á norðausturlandi myndu þeim stærstu ljúka með Vopnafjarðartengingunni, þótt vissulega væru næg verkefni til staðar í vegagerð þar sem annars staðar. Næst í röðinni væru þá líklega  ef litið er til stærri verka, langþráðar vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum.

Samgönguráðherra sem að undanförnu hefur vígt fjögur stór verkefni í vegagerð, Bolungarvíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, Lyngdalsheiðarveg og nú Hófaskarðsleið/Raufarhafnarveg, sagði að hann hefði öðlast nýja sýn á samgöngumál. Mikilvægi vegabóta fyrir íbúa viðkomandi svæðaværu miklum mun mikilvægari en hann hafði gert sér grein fyrir, og ótrúleg sú gleði og bjartsýni sem lesa mætti úr orðum og fasi sveitarstjórnarfólks og íbúa þeirra byggða sem næst þessum framkvæmdum liggja. Rímaði það við þau orð hans við opnun Lyngdalsheiðar að í raun væri Vegagerðin menningarstofnun sem í raun hefði ótrúleg áhrif á þróun byggða og velferð fólksins. 

Við framkvæmdina breytast vegalengdir milli þéttbýlisstaða á Norðausturlandi. Vegalengdin milli Kópaskers og Þórshafnar styttist um 46 km samanborið við veginn um Melrakkasléttu og 24 km miðað við leiðina um Öxarfjarðarheiði. Vegalengdin milli Húsavíkur og Þórshafnar styttist um 53 km samanborið við veginn um Sléttu en lengist um 15 km miðað við leiðina um Öxarfjarðarheiði sem aðeins hefur verið sumarvegur. Vegalengdin milli Raufarhafnar og Kópaskers styttist um 13 km en lengist um 4 km milli Raufarhafnar og Þórshafnar.

Frekari upplýsingar um verkið.

 

Hófaskarð opnun

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ávarpar víglsugesti 

Hófaskarð opnun

Heiðursmennirnir Andrea Björk Sigurvinsdóttir og Rúnar Jónsson ásamt skæraverðinum sem heitir Dagný Ríkharðsdóttir 

Hófaskarð opnun

 

Hófaskarð opnun

Ögmundur Jónasson samgönguráðherra og vegamálastjóri 

Hófaskarð opnun

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og fyrrverandi samgönguráðherra (sá með rauðu húfuna) 

Hófaskarð opnun

Ögmundur Jónasson klippir og fékk sér til aðstoðar forvera sína í starfi þá Kristján L. Möller, Halldór Blöndal og Steingrím J. Sigfússon og til að ekki væru eingöngu karlar að klippa hóaði hann líka í Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjór, Hreinn fékk til liðsinnis við sig forvera sinn Jón Rögnvaldsson. Skæravörður er Dagný Ríkharðsdóttir 

Hófaskarð opnun

Hreinn Haraldsson, Ögmundur Jónasson og Kristján L. Möller 

Hófaskarð opnun

 

Hófaskarð opnun

 

Hófaskarð opnun

 

Hófaskarð opnun

 

Hófaskarð opnun

Vegagerðin, Norðurþing, Langanesbyggð og Svalbarðshreppur buðu gestum til hádegisverðar í félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn.